Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Qupperneq 49
49
urnar.32 Framhaldsmyndin Dagvakt olli þar af leiðandi minni eftirvænt-
ingu og fór ekki eins hátt. Það var kannski engin tilviljun að jafn mikið hafi
verið lagt í markaðssetningu utan Rússlands en myndirnar virka á stund-
um sem ögrun eða áskorun á vinsælar bandarískar myndir og kvikmynda-
stíl þeirra. Vaktirnar eru blanda af hrollvekju og hasar með greinilegum
undirtónum myndasögulegra kvikmynda í anda Matrix-þrennunnar (1999
og 2003, Andy og Larry Wachowski). Í stuttu máli er bakgrunnur mynd-
anna sá að í fyrndinni börðust tveir flokkar fólks með yfirnáttúrulega hæfi-
leika. Þegar ljóst varð að hvorugur gæti sigrað var efnt til sátta sem felast í
því að fulltrúar hvors hóps fyrir sig vaktar hinn. Þeir sem vilja nýta hæfi-
leika sína til „ills“ (það er, til að níðast á venjulegu fólki) iðka hátterni sitt
aðallega á nóttunni, og teljast þannig myrkir. Hinir „góðu“ tilheyra því
næturvaktinni, og öfugt; vonda liðið vaktar hina góðu, fulltrúa ljóssins, á
daginn. Eins og heiti vaktanna gefa klárlega til kynna ruglast mörkin milli
myrkraverka og birtu stöðugt, þeir valdamestu (með mestu yfirnáttúrulegu
kraftana) eru ævinlega að plotta eitthvað á bak við tjöldin. Þetta er undir-
strikað enn frekar í efnistökum og myndatöku, söguþræðir myndanna eru,
eins og fyrr segir, meira eða minna óskiljanlegir og þetta er ítrekað með
mjög æsingslegri og tæknilega flottri myndatöku þar sem öll áhersla er á
að skapa ofursvalt útlit og sláandi áhrif. Að þessu leyti sverja myndirnar sig
í þá virðulegu hefð heimshrollvekja að sinna frásagnarhlutverki sínu mun
síður en hinum sjónrænu áhrifum. Ýktir taktar í myndatöku, svo sem miklar
sveiflur í hraða, frá ofurhægum senum yfir í hröðun (að hætti Matrix-
myndatökunnar), í samspili við sérlega safaríkar sviðsetningar og sviðs-
myndir þjóna einnig því hlutverki að draga fram að í myndunum er að
finna tveggja heima sýn; hinn sýnilega og hversdagslega og hinn ósýnilega
og yfirnáttúrulega. Þannig eru þessar myndir sérlega gott dæmi um fyrr-
nefnt uppáhaldsviðfangsefni hrollvekjunnar sem lýtur að því að sjá (og
skilja). Þessi spurning um að sjá og sjá ekki, er stöðugt ítrekuð, bæði í efn-
istökum og myndatöku.
32 Ein ástæðan fyrir þeim mikla titringi sem myndaðist í kringum kvikmyndina gæti
verið sú að það er ákaflega lítil hefð fyrir hrollvekjum í rússneskri kvikmyndagerð.
Sjá grein Josephine Woll, „Exorcising the Devil: Russian Cinema and Horror“ í
netritinu KinoKultura 4. apríl 2004, http://kinokultura.com/articles/apr04.html,
síðast skoðað 170809. Greinin er stytt útgáfa af bókarkafla í Horror International,
ritstj. Steven Jay Schneider og Tony Williams, Detroit: Wayne State University
Press, 2005.
HRoLLVEKJUR LIGGJA TIL ALLRA ÁTTA