Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Síða 51
51
HRoLLVEKJUR LIGGJA TIL ALLRA ÁTTA
ig kvikmyndahús), en þetta tvennt hefur oft og tíðum verið mun vinsælla
afþreyingarefni í Japan en kvikmyndir.33 Japanskar hrollvekjur sækja því
mikið í þennan brunn og innan anime er öflug hefð hrollvekja sem hafa
haft sín áhrif á kvikmyndastíl, eins og kemur kannski best fram í því hvern-
ig taktur japanskra mynda einkennist annars vegar af nokkuð hægum
myndskeiðum sem er snögglega klippt saman við „sjokk“ senur, eins og
þegar draugarnir í hinum fjölmörgu draugamyndum (frá Hringnum til
Bölvunarinnar) birtast skyndilega í snöggum skotum sem oft byggja á
skekktum sjónarhornum.34 Þessi tækni óvæntra samklippa og sjónarhorna
minnir um margt á frásagnartækni manga og hefur reynst sérlega áhrifarík
fyrir japanskar hrollvekjur, enda hentar hún forminu afar vel og er að
nokkru leyti skyld þeirri myndatökutækni sem hefur þróast á Vestur-
löndum.
Þegar myndir eins og Hringur, Bölvun og Myrkt vatn eru skoðaðar er
erfitt að sjá teikn um að algerlega sé verið að sniðganga Hollywood þó að
vissulega sé ljóst að japanskar hrollvekjur byggja ekki síður á sjálfstæðum
hefðum í japanskri kvikmyndagerðarhefð en bandarískum viðmiðum. Þó
er áhugavert að bera Hring saman við Öskraðu (1996, Wes Craven, Scream),
sem báðar gera hrollvekjur, áhrif þeirra og vinsældir, að viðfangsefni sínu.
Í Öskraðu er spunninn þéttur vefur beinna tilvísana í aðrar hrollvekjur sem
spinna söguþráðinn, allt frá morðum illmennanna til leiða kvenhetjunnar
til að sigrast á þeim, en í einni senu hendir hún sjónvarpi (sem sýnir hroll-
vekjuna Hrekkjavöku (1978, John Carpenter, Halloween)) yfir höfuð annars
morðingjans. Hringurinn gerir hins vegar út á kvendraug sem ásækir fólk
sem hefur horft á tiltekna vídeómynd sem sýnir (hrollvekjandi og óljós)
atriði úr æsku hennar og drepur með því að skríða út úr sjónvarpsskermi.
Þrátt fyrir að efnistök og sjónrænt yfirbragð séu gerólík er ljóst að mynd-
irnar eru báðar afkvæmi hræringa sem áttu sér stað innan hrollvekjunnar á
33 Sjá Sharon Kinsella, Adult Manga: Culture and Power in Contemporary Japanese
Society, Richmond, Surrey: Curzon, 2000, bls. 41. Sjá einnig kaflann „The
Moderniza tion of Japanese Film“, The Oxford History of World Cinema, ritstj.
Geoffrey Nowell-Smith, oxford: oxford University Press, 1997, bls. 714–721.
34 Jay McRoy ræðir einmitt sérstakan tökustíl leikstjórans Shimizu Takashi í grein
um fyrri Bölvunar-myndina, „Case Study: Cinematic Hybridity in Shimizu
Takashi’s Ju-on: The Grudge“, Japanese Horror Cinema, ritstj. Jay McRoy, Edin-
burgh: Edinburgh University Press, 2005, bls. 175–184. Hann tekur sérstaklega
dæmi af því hvernig draugarnir birtast iðulega á jöðrum myndarammans og virka
því næstum eins og sjónblekkingar, eitthvað sem áhorfandi getur ekki verið viss
um hvort hann hafi séð, því að það er á mörkum sjónsviðsins.