Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Side 68
68
Kemp, Hvalaskoðunarblóðbaðið í Reykjavík), svolítið á óvart, en óhætt er að
segja að myndinni hafi verið slátrað. Einnig vakna upp spurningar um það
samhengi sem gagnrýnendur settu myndina í og hvort þær túlkunarleiðir
sem þar má merkja séu í öllum tilvikum réttmætar.
Í þessari grein varpa ég fram spurningum um túlkunarsamhengi slægju
á borð við RWWM og hvort slíkar kvikmyndir sæki kraft sinn í ögrandi
margræðni þar sem öll merking fer á flot. Ef sú er raunin eru allar fræði-
legar tilraunir til þess að troða slægjunni inn í þröngan skilgreiningar-
ramma dæmdar til þess að mistakast, ekki síst ef greinandinn kýs að virða
þær grundvallarforsendur sem skilgreina slægjuna sem kvikmyndagrein og
þá fagurfræðilegu aðferð sem hún hefur að leiðarljósi.
H(j)akk
Jafnvel „auvirðilegustu“ listgreinar gera kröfu til áhorfenda um þekkingu á
formgerðinni sem þær heyra undir. Söguþráður RWWM er gamalkunnur
aðdáendum slægjunnar, en myndin er um margt afturhvarf til þeirra
bandarísku hryllingsmynda sem festu sig í sessi milli 1974 og 1981. Hér
hefur söguþráðurinn verið lagaður að íslenskum veruleika í frásögn sem er
augljóslega upptekin af samskiptum Íslands og umheimsins. Í henni er sagt
frá hópi erlendra ferðamanna sem heldur í hvalaskoðunarferð út á
Faxaflóa. Þegar skipstjóri bátsins (Gunnar Hansen) lætur lífið í hörmulegu
slysi kemur stórhættuleg fjölskylda dýravinunum til hjálpar og flytur þá
um borð í hvalveiðiskip sitt sem liggur fyrir festum úti á Hvalfirðinum. Þar
tekur hún til við að brytja niður túristana eftir öllum kúnstarinnar reglum,
staðráðin í að hefna sín á þessu útlenda hyski sem hefur í nafni alþjóðlegr-
ar hvalafriðunar rænt hana lifibrauði sínu og neytt til að framfleyta sér á
auðmýkjandi hátt með því að skera út hvali í bein sem minjagripi um skoð-
unarferðina.3
Morðingjarnir eru sálsjúkar mannætur og einn þeirra, Siggi (Stefán
Jónsson), er augljóslega kynferðislega brenglaður, en bæði hann og bróðir
hans Tryggvi (Helgi Björnsson), eiga í óheilbrigðu sambandi við móðurina
3 Sjón, en hann er handritshöfundur myndarinnar, lýsir þessu svo í viðtali í Morgun-
blaðinu: „Bara það að sigla frá borginni býr til ákveðna fjarlægð. Svo er þar skip
illmennanna, fólks sem býr utan samfélagsins og þar er ákveðið siðleysi í gangi —
það hefur ástæðu til að hata þetta fólk sem sækir sér þessa saklausu skemmtun“. Sjá
Pétur Blöndal, „Stutt spjall um hrollvekju“, Morgunblaðið 30. ágúst 2009, bls. 14.
GUðNI ELÍSSoN