Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Qupperneq 91
91
isrembu til þess að slátra öllum sem ekki kunna hið ástkæra ylhýra á meðan
fórnarlömbin eru versta gerðin af ferðamönnum, þeir sem fara í fyrirsjáan-
legar pakkaferðir til þess að skoða verstu klisjurnar í bæklingnum. og á end-
anum verður þetta eilífur dauðadans flónsku, biturðar og tækifærismennsku.
Hljómar kannski kunnuglega?“
Ég held að Ásgeir hitti naglann á höfðið þegar hann tengir RWWM
leikhúsi fáránleikans. Með því er hann líklega ekki að halda því fram að
leggja eigi unglingaslægjuna að jöfnu við helstu leikverk Harolds Pinters,
Samuels Beckett, Jean Genet, Eugénes Ionesco eða Friedrichs Dürrenmatt,
heldur fremur að hláturinn gegni gjarnan svipuðu hlutverki á þessum
tveimur ólíku sviðum listsköpunar. Þegar Leonard Russell gagnrýnandi
The Sunday Times skammaði Pinter árið 1960 fyrir stefnuleysi í leikritinu
The Caretaker (Húsverðinum) þá var það á svipuðum forsendum og í gagn-
rýninni hér að ofan. Russell þótti leikhúsreynslan sérkennilega yfirþyrm-
andi og óþægileg, ekki síst olli það honum heilabrotum hvernig áhorfend-
ur brugðust á óviðeigandi hátt við harmrænum augnablikum verksins með
hlátri. „Ertu sáttur við þetta andrúmsloft græskulauss gamans?“ spurði
Russell í opinberu bréfi til Pinters, og þótti verkið greinilega hvorki fyndið
né græskulaust. Svarið er líklega frægasta skáldskaparyfirlýsing Pinters, en
hún hefur orðið útgangspunktur í allri túlkun á verkinu. Pinter sagði: „Ég
er á þeirri skoðun að ‚Húsvörðurinn‘ sé upp að ákveðnum mörkum fynd-
inn. Sé farið fram yfir þau mörk hættir verkið að vera fyndið, og það var
einmitt þess vegna sem ég skrifaði það“.60
En er þá hugsanlegt að fyrirsjáanlegar pakkaferðir geti ummyndast í
menningartúrisma í höndum gagnrýnenda ef RWWM er sett í nýtt og
óvænt samhengi? Þá væri horft til annars konar strauma í sköpun hryll-
ings. Bakgrunnur handritshöfundarins í evrópskri framúrstefnu væri
greindur, staða leikaranna innan íslensks leikhúss og evrópskrar kvik-
myndalistar og síðast en ekki síst dreifingarkerfið sem notað er til þess að
koma myndinni á framfæri. Túlkun Pinters mætti til að mynda auðveld-
lega beita á ýmsar þekktustu slægjur síðustu áratuga. Tilgangurinn væri þó
ekki sá að gefa kvikmyndagreininni falska dýpt, heldur fremur að draga
fram hvernig sum af mikilvægustu viðfangsefnum absúrdleikhússins má
60 „As far as I’m concerned, ,The Caretaker‘ is funny, up to a point. Beyond that
point it ceases to be funny, and it was because of that point that I wrote it.“ Sjá t.d.
umfjöllun Ronalds Knowles: „,The Caretaker‘ and the ,point of laughter‘“, Journal
of Beckett Studies, hefti 5, haust 1979, ritstj. James Knowlson og John Pilling, http:/
www.english.fsu.edu/jobs/num05/Num5knowles.htm [sótt 29. mars 2010].
UNDIR HNÍFNUM