Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Page 97
97
Myndir spænska kvikmyndaleikstjórans Pedro Almodóvar eru allt í senn
líflegar, litríkar og sjálfhverfar.1 Þær tjá og kanna einstaklingsbundnar
sjálfs myndir, kynferði, ástríður og samfélagsbælingu. Mikil greinablöndun
einkennir verkin og formúlureglur eru markvisst virtar að vettugi.
Hugmyndafræðileg ádeila og svartur húmor setja mark sitt á efnistök en
endurstælingar (fr. pastiche) ákvarða frásagnartækni og sjónrænan stíl.
Almodóvar gerir gjarnan meðvitað út á þekkt eða augljós fyrirbæri um leið
og hann stælir þau, en ólíkt skopstælingu er endurstælingu ekki ætlað að
vera kaldhæðin eða draga dár að fyrirmyndinni.2
Með því að bera kennsl á þessa tækni sem samþættir stríða hugmynda-
fræði og póstmóderníska endurvinnslu öðlast áhorfandinn ákveðinn grein-
ingarlykil sem auðveldar honum að hverfa inn í afkáraleg og feikna flókin
verk Almodóvar. Atburðarásin er völundarhúsi líkust, enda mikið að gerast
á hverjum tímapunkti og afdrif fjölmargra kynlegra persóna spyrðast
saman í tengdum söguþráðum. Höfundarverkinu er haldið saman af eigin
fagurfræði sem lituð er af súrrealisma, textatengslum, róttækum endur-
vinnslum, spænsku kampi og kitsi þar sem segja má að öfgafullt innra
1 Greinin er unnin upp úr B.A.-ritgerð höfundar frá árinu 2008 þar sem súrrealísk-
um og póstmódernískum einkennum ásamt efni, formi og stíl höfundarverks
Almodóvar eru gerð betri skil en hér er kostur. Björn Ægir Norðfjörð á þakkir
skildar fyrir dygga aðstoð sína og nákvæman yfirlestur á bæði ritgerð og grein
sem og Úlfhildur Dagsdóttir og ónefndur ritrýnir sem lásu greinina vandlega yfir
á vinnslu stigum.
2 orðið endurstæling er viðleitni til að þýða franska orðið pastiche. Sjá nánar Richard
Dyer, Pastiche, New York: Routledge, 2007, bls. 2–3 og 40.
hjördís stefánsdóttir
Róttæk endurstæling
eða háðsk árás á blygðunarkennd
vammlausra áhorfenda?
Rýnt í höfundarverk Pedro Almodóvar
Ritið 2/2010, bls. 97–119