Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Page 101
101
Póstmódernískur súrrealismi
Almodóvar reynir ekki að útskýra hina fjölmörgu óröklegu eiginleika
sagnaheims síns og snilld hans nýtur sín einna best þegar aðstæður verða
aðeins of klikkaðar. Sumir segja þessa klikkun vera siðblindu en einnig er
hægt að líkja henni við eins konar ósjálfráða geðhreinsun þar sem reynt er að
tjá flæði hugsana áður en skynsemin, fagurfræðin og siðferðið setja henni
mörk.8 Þessi ósjálfráða geðhreinsun er kjarni hugmyndarinnar um súrreal-
isma en samkvæmt stefnuskrá forsprakka hreyfingarinnar á hann að vera
andóf gegn hömlum frjálsrar sköpunargáfu og hámenningu, höfnun á
rökhyggju, viðteknu siðferði, félagslegum og menningarlegum venjum og
viðmiðum og allri fyrir fram stjórnun á listrænu ferli með ætlun.9 Fylgj-
endur stefnunnar hafa alla tíð leitast við að afbyggja stýrandi formúlur
með sjálfvirkum skrifum dulvitundarinnar sem losar um bælingu sam-
félagsins og Almodóvar er þar ekki undanskilinn.
Afkáralegur súrrealismi verka hans er svar við raunhyggju og afstæðri
tilbúinni hugmyndafræði sem vestrænt feðraveldi hefur skýlt sér bak við
og þá sérstaklega fasistaríki Franco. Höfundurinn sýnir áhorfendum, með
atferli litríkra persóna, að í lífsins leik eru hugsanir og gjörðir einstaklings-
ins ekki alltaf rökréttar. Stundum stjórnast þær af blindri kynferðislegri
þrá, tilfinningalegum æsingi eða einhverju öðru „óskynsamlegu“ sem
stríðir gegn viðteknum gildum og framkomu. Myndirnar reyna að endur-
skilgreina raunveruleikann þannig að hann taki bæði á meðvituðum stýrð-
um hugsunum mannsins og bældum ósjálfráðum hugmyndum hans. Með
því að frelsa ímyndunarafl áhorfenda undan augljósri fléttu klassískra frá-
sagnarkvikmynda reynir höfundurinn þannig að víkka skilning þeirra á
tilveru sinni og samsemd. Túlkunin er aðeins fær þeim sem leggur sjálf-
viljugur niður varnir rökhugsunarinnar og sökkvir sér ofan í súrrealísk
ævintýrin.
Almodóvar leitast einnig við að vekja áhorfendur til umhugsunar um
samhengi nútímans og því má segja að höfundarverkið sé í eðli sínu bæði
póstmódernískt og súrrealískt. Póstmódernismi er hugtak sem á bæði við
tíma og rúm en hann er óaðgreinanlegur frá neysluæði, stórborgum og
8 Sbr. André Breton, Manifestoes of Surrealism, þýð. Richard Seaver og Helen R.
Lane, Ann Arbor: The University of Michigan Press, 1972 [1924], bls. 26.
9 Sama rit, bls. 3–47.
RÓTTÆK ENDURSTÆLING