Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Síða 110
110
urnýtir og stælir allt sem höfðar til hans, sama hvaðan það kemur. Einstök
fagurfræðin er lituð af áðurnefndum kits-, kamp- og endurstælingarstíl-
brögðum sem blandast í meðförum leikstjórans í ærlegan hrærigraut.
Skynsemi og dulvitund, líf og list verða ekki svo auðveldlega aðgreind,
menning og kynhneigð er ekki flokkanleg í afmarkaðar undirgreinar.
Stigveldi há- og lágmenningar, viðeigandi og ótækra birtingarmynda, hall-
ærisleika og hátísku á ekki við og landamæri listgreina hafa verið afskrifuð;
einstaklingsbundnar ástríður eru einu áttavitarnir.
Allar stælingar, stuldir og endurvinnslur eru því gjaldgengar. Kika og
Kvikt hold eru til dæmis frjálslegar aðlaganir áður útgefinna skáldsagna.
Augljós endurvinnsla á eldri útfærslum verksins Sporvagninn Girnd eftir
Tennesse Williams á sér stað í Allt um móður mína (1999, Todo sobre mi
madre) sem einnig flaggar textatengslum sínum við myndina Allt um Evu
(1950, Joseph L. Mankiewicz, All About Eve) eins og titlarnir bera vott um.
Uppsetning á Mannsröddinni (1932, La voix humaine) eftir Jean Cocteau
kemur við sögu í Lögmáli girndar en verkið var einnig kveikjan að mynd-
inni Konur á barmi taugaáfalls (1988, Mujeres al borde de un ataque de ner-
vios). Þá mynd endurvann hann svo sem rammafrásögn í Brostnum faðm-
lögum. Í Konum á barmi taugaáfalls er að finna velþekkt samtal úr myndinni
Johnny gítar (1954, Nicholas Ray, Johnny Guitar) sem einnig er tekið úr
réttu samhengi þegar aðalpersónur Almodóvar hljóðsetja það á spænsku
og tjá ósagðar tilfinningar sínar í leiðinni. Þessi dæmi eru augljóslega ekki
beinar tilvitnanir eða upphafning á listrænu hefðarveldi heldur eru þau
„yfirtekin“ og saumuð inn í verk Almodóvar þar sem þau verða hluti af
reynslu og söguheimi persóna.
Eins og áður segir sækir Almodóvar ekki einungis í forskriftir viður-
kenndra listaverka, heldur er neyslumenningin honum einnig hugleikin.
Sjónvarpið með ófyrirleitnum, lágkúrulegum veruleika- og spjallþáttum,
auglýsingum og upphöfnum stjörnuímyndum sem skilyrða og heilaþvo
áhorfendur er tíður skotspónn höfundarins. Hann nýtir sér hvert tækifæri
til að deila á firrt upplýsingaþjóðfélagið, stýringu þess og tjáningarerfið-
leikana sem af því spretta með því að skopstæla og ýkja súrrealíska þætti
sjónvarpsútsendinga. Kvikmyndin Kika snýst í hnotskurn um slíka ádeilu
en þar ryðst veruleikasjónvarpið inn í einkalíf og rými samnefndrar aðal-
hetju á meðan henni er nauðgað.
Á móti hinni lífsglöðu Kiku, sem dreymir um að verða fræg leikkona en
lætur sér nægja að vera förðunarfræðingur stjarnanna, teflir Almodóvar
hjöRDís stEfáNsDóttiR