Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Qupperneq 113
113
og sjálfsmyndakreppan sem af þessu hlýst getur ekki endað öðruvísi en
með ósköpum. Slík ósköp verkanna eru súrrealískar samsuður raunveru-
leika og illra staðleysa — ádeilan býr í raunveruleikaafbökuninni, texta-
tengslum og vísunum.
Húmorinn er ekki eingöngu hægt að rekja til Valle-Inclán því að grín
runnið frá Hollywood (e. slapstick og screwball) hefur einnig sett mark sitt á
höfundinn. Reyndar hrærir Almodóvar fleiri greinum saman í graut sinn,
eiginleikar spennutrylla láta á sér kræla af og til ásamt rökkurmyndahefð-
inni svo að ekki sé minnst á melódramað.33 Eins og Thomas Elsaesser
hefur bent á er melódrama afar fyrirferðarmikið í listsköpun þjóða þegar
hugmyndafræðileg kreppa ríkir í samfélaginu.34 Hann leggur aðallega út
af Hollywood-myndum Douglas Sirk frá sjötta áratug síðustu aldar þar
sem miðstéttarfjölskylda samtímans er í brennidepli. Þetta tímabil, eftir
seinna stríð, var markað af pólitískum þversögnum og almennri upplausn í
Bandaríkjunum en auðvelt er að heimfæra ástandið yfir á Spán eftir fráfall
Franco.
Melódramatísk einkenni láta helst til sín taka í leikmynd, atferli pers-
óna og tónlist slíkra kvikmynda en það á einnig við myndir Almodóvar
sem státa meðal annars flestar af líflegum tónlistaratriðum. Af áðurnefnd-
um einkennum eru þau sem tengjast leikmyndinni líklega veigamest en
hún eykur margræðni og dýpt verkanna með því að hlutgera það sem pers-
ónur geta ekki tjáð. Kits- og kamp-stílbrögðin eru því ekki tóm efnis-
hyggjuplastlíki heldur verða þau hlaðin merkingaraukum sem skilgreina
einstaklingseðli persóna, líkt og komið hefur fram.
Í huga Elsaesser verður leikmyndin í melódrama þar með yfirhlaðin
merkingu.35 Kæfður kvíði og innri þversagnir persóna yfirfærast á leik-
muni þannig að miðstéttarheimilið, staður átaka, hefur bælandi áhrif á
íbúana. Síðar á áttunda áratugnum víkkuðu Laura Mulvey og Geoffrey
33 Rökkurmyndahefðin (fr. film noir) er áþreifanlegust í Afleitri menntun þar sem
aðalpersónan Juan er augljóst tálkvendi sem villir á sér heimildir. Hann/hún (Juan
er klæðskiptingur sem tælir karla) er meðvitaður um vald kynþokka síns, kaldrifj-
aður, óbanginn og siðlaus. Fyrir honum er kynlíf ekki uppspretta nautnar heldur
aðferð til að klekkja á öðrum. (Það nægir Almodóvar ekki hér frekar en annars
staðar að fá einungis lánaða eiginleika greinar heldur afbyggir hann og endurstæl-
ir markvisst í leiðinni, t.d. með því að láta tálkvendið vera karlkyns).
34 Thomas Elsaesser, „Tales of Sound and Fury: observations on the Family
Melodrama,“ Movies and Methods, ritstj. Bill Nichols, annað bindi, Berkeley, Los
Angeles, London: University of California Press, 1985 [1972], bls. 167.
35 Sama rit, bls. 173.
RÓTTÆK ENDURSTÆLING