Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Page 115
115
dauða er hún kveikti í húsi sínu. Bruninn grandaði eiginmanni hennar og
hjákonu hans en Irene hefur farið huldu höfði síðan. Kvenleggurinn nær
um síðir saman og hamingjan tekur völdin í fyrsta sinn í lífi þeirra.
Feður eru ekki endilega alltaf fjarverandi hjá Almodóvar, þeir geta
einnig verið óhæfir eða óþarfir. Undantekningin frá þessu er Victor, aðal-
hetjan í Kviku holdi, sem reynist góð föðurímynd. Ricky í Bittu mig, elskaðu
mig! er bjargvættur eins og hetjur í myndum Sirk en hann er jafnframt
ofbeldisfullur árásarmaður. Augljóst má orðið vera að oft er erfitt að greina
milli ástar og afbrigðis hjá leikstjóranum og spyrja má hvort myndir hans
séu rómantískar ástarsögur, uggvænlegir harmleikir eða jafnvel hrollvekjur.
Myndirnar eru algjörar samsuður sem hæfa vel listamanni í fylkingar-
brjósti póstmódernisma. Líkt og Warhol og Hitchcock hefur Almodóvar
skapað sér ímynd höfundar sem margt er til lista lagt, kann að spila með
fjölmiðla og selja ímynd sína. Vissulega er Almodóvar einstakur og það
útskýrir heimsvinsældirnar en hann verður aðeins skilgreindur út frá sam-
hengi sínu við umhverfið og með samanburði við aðra. Samhengið, kenn-
ingarnar og tengingar eru háðar sjónarhorni rýnandans. Verkin lifa og
þrífast í umræðunni þar sem hver og einn getur fundið eitthvað sem höfð-
ar til hans og ljáð einstökum þáttum sérstæða merkingu út frá sinni heims-
mynd. Það er ekki aðeins Almodóvar sem tekur til sín það sem honum
hentar — áhorfendur bera sig eins að.
Róttæk endurstæling eða háðsk árás á blygðunarkennd
vammlausra áhorfenda?
Höfundurinn Almodóvar hefur alla tíð verið umdeildur enda aðferðafræði
hans og viðfangsefni líkust ósjálfráðri geðhreinsun. Umræðan um verkin
hefur þar af leiðandi sjaldnast snúist einungis um fagurfræði, stílbrögð eða
skemmtanagildi heldur verið mörkuð snörpum skoðanaskiptum um sið-
semi og hugmyndafræði þar sem efnisorð á borð við ástríður, óskrifuð
mörk og höft mannlegs samfélags, trú, stjórnmál, jafnrétti, þjóðernis-
hyggju og fjölmiðlun ber gjarnan á góma. Almodóvar virðist þrífast á því
hversu alræmdur hann er og hann gengst hiklaust upp í því en litrík
stjörnu ímynd hans sprengir utan af sér alla þá stakka sem honum hafa
verið sniðnir. Myndir hans tilheyra hvorki jaðri né miðju því að þær eru
allt í senn framúrstefna, evrópskt listabíó og meginstraumsafþreying, stór-
smellir og heimskvikmyndir eins og áður segir.
RÓTTÆK ENDURSTÆLING