Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Page 123
123
eða vanlíðan íbúa stórborga samtímans og þá sérstaklega þeirra sem hann
þekkir hvað best til — stórborga Rómönsku Ameríku á borð við Mexíkó,
Ríó de Janeiro og Buenos Aires. Hann útskýrir að velferð einstaklings
byggist á því að hann finni til samsömunar með umhverfi sínu og þyki
hann tilheyra því. Hann bendir á að nauðsynleg rótfesta (s. arraigo) ein-
staklings byggist á því að hann finni sig tilheyra ákveðnu rými, tilteknu
félagslegu samfélagi og/eða menningarlegu umhverfi. Ibáñez útskýrir að
maðurinn hafi tilhneigingu til að „staðfesta sig“ í því rými sem mótar hann
hvað mest og sú mótun getur verið til staðar jafnvel þótt maðurinn sé ekki
„líkamlega“ staðsettur í rýminu. Hann getur verið fjarri því, en „borið það
innra með sér“ (bls. 27). Rótfesta í rými er samkvæmt skilgreiningu Ibáñez
þess vegna tengd afmörkuðu landsvæði eða tilteknum stað. Með sama
hætti festir einstaklingurinn félagslegar rætur þegar hann tilheyrir hópi
eða samfélagi sem hann er í nánum tengslum við. Fjölskylda, ætt, vinahóp-
ur og/eða vinnufélagar mynda veröld sem einstaklingurinn tilheyrir. Þau
eru það samfélag sem mótar hann og hann tekur þátt í að móta. Þriðja teg-
und rótfestunnar sem hann tiltekur er menningarleg rótfesta. Hún sprett-
ur m.a. úr því tungumála-, trúar- eða hugmyndafræðilega samfélagi sem
einstaklingurinn finnur til samsömunar með og tryggir honum öryggistil-
finningu. Ibáñez leggur áherslu á að „vansæll maður sé rótlaus maður“
(bls. 38) og segir: „Maðurinn festir rætur þegar honum finnast ríkjandi
reglur og gildi vera sín eigin, því að þrátt fyrir lítið svigrúm skilgreinir
hann sig sem frjálsan, ábyrgan og dæmigerðan mann“ (bls. 28). Hann
bendir enn fremur á að í smáborgarsamfélögum fyrri tíma hafi „hlutverk
mannsins í borgarrýminu [verið] leiðandi“ (bls. 26) og að maðurinn hafi
mótast af borginni um leið og hún hafi mótast af honum: „Lífsnauðsynleg
rótfesta mannsins í sameiginlegu rými, ákvarðaði félags- og menningar-
lega rótfestu hans“ (bls. 26). Ibáñez ítrekar að finni maðurinn hins vegar
ekki til félagslegrar rótfestu þjaki hann rótleysi (s. desarraigo) og að í stór-
borgarsamfélögum sem sífellt þenjast út ali þetta rótleysi á öfgakenndri
einstaklingshyggju, sem og fjölmenningu ótengdra samfélagshópa. Við
þær aðstæður tapar einstaklingurinn mikilvægi sínu, einangrar sig frá
félagslegum þörfum og vellíðanin sem samsömunin tryggði honum
umbreytist í vaxandi vanlíðan. Afleiðing einangrunar í ört stækkandi sam-
félagi verður afskiptaleysi og jafnvel tómlæti eða leiði. Þegar hér er komið
sögu hefur maðurinn tapað eiginleikum forvitninnar ásamt hæfileikanum
til að undrast og heillast af veruleikanum. Af því leiðir að hann á sífellt erf-
iðara með að finna ákjósanlegan dvalar- og íverustað (bls. 37–38).
RÍKJANDI RÓTLEYSI