Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Page 125
125
vaxandi þjóðfélagslegan óróa og breytingar á viðhorfum og gildum. Enn
fremur bendir hann á vaxandi áhrif og umsvif eiturlyfjabaróna og herja
þeirra víða um landið og telur þau afleiðingu þessa umróts og ástæðu enn
frekara afskiptaleysis alþýðu manna af stjórn- og félagsmálum.8
Nokkrir áberandi kvikmyndaleikstjórar yngri kynslóðarinnar, eins og
Alfonso Arau, sem m.a. gerði myndina Kryddlegin hjörtu (1992, Como agua
para chocolate), Guillermo del Toro, sem fyrst vakti athygli fyrir myndina
Cronos (1993) og nú síðast fyrir Völundarhúsið (2006, El laberinto del Fauno)
og vinur hans Alfonso Cuarón, leikstjóri myndarinnar Og mamma þín líka
(2001, Y tu mamá también), völdu að hasla sér völl hinum megin landamær-
anna, þ.e. í Hollywood undir lok tuttugustu aldar.9 Það var hins vegar
Arturo Ripstein sem mótaði umfram aðra kvikmyndasenu Mexíkó á fyrri
hluta tíunda áratugarins með því að halda kyrru fyrir í heimalandinu. Í
myndum hans eins og Konan við höfnina (1991, La mujer del puerto), Upphaf
og endir (1993, Principio y fin), Næturdrottningin (1994, La reina de la noche),
Djúprautt (1996, Profundo carmesí), Heilagleikinn (1998, El evangelio de las
maravillas) auk myndarinnar Liðsforingjanum berst ekki bréf (1999, El coronel
no tiene quien le escriba), sem byggir á skáldsögu kólumbíska nóbelsverð-
launahafans Gabriel García Márquez, er brotið blað í kvikmyndasögu
landsins og velgengni hans á heimamarkaði á sér ekki hliðstæðu í öðrum
löndum álfunnar. Í myndum Ripsteins er samfélagslegum spurningum um
hlutverk mannsins, ásamt vangaveltum um tilgang lífsins haganlega fléttað
saman við framsetningu atburða sem leiða af sér átök og ofbeldi af ýmsum
toga. Lífshlaup einstaklingsins verður að einhvers konar ferðalagi sem
mótast af endurmati á gildum og aðstæðum hverju sinni. Í kjölfarið verður
sambærilegt endurmat að leiðarstefi í verkum og viðfangsefnum yngri
leikstjóra þar sem nánasta umhverfi er fest á filmu og áleitnum spurning-
8 Sjá enn fremur nýútkomna bók mexíkóska rithöfundarins Jorge Volpi, El Insomnio
de Bolivar: Cuatro consideraciones intempestivas sobre América Latina en el siglo XXI,
Madrid: Debate Editorial, 2009. Í ritdómi um hana segir: „Actually, the book is
composed of meditations on four topics: the disappearance of the traditional
concept of Latin America; the region’s perennial struggle with political and
economic pains; the new frontiers of Latin American literature; and the future”,
http://www.americasquertly.org/node/1534 (sótt 8. júlí 2010).
9 Alfonso Cuarón hefur ekki hvað síst vakið athygli utan Mexíkó fyrir leikstjórn sína
á Harry Potter og fanginn frá Azkaban (2004, Harry Potter and the Prisoner of
Azkaban). Sjá ágæta umfjöllun Sæbjörns Valdimarssonar í Lesbók Morgunblaðsins,
„Þrír magnaðir Mexíkóar“, 17. mars 2007, http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/
grein.html?grein_id=1135159 (sótt 8. júlí 2010).
RÍKJANDI RÓTLEYSI