Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Page 140
140
unglinga og unglingamenning stórborgarsamfélagsins er enn fremur um-
fjöllunarefni myndarinnar Sársauki ástarinnar (2002, Amar te duele), sem
Carolina Rivera skrifaði handrit að og eiginmaður hennar Fernando
Sariñana leikstýrði. Myndin hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir þá
áherslu sem hún leggur á hlutverk verslunarmiðstöðva samtímans sem
vettvang mannamóta. Torgamenning fyrri alda, þar sem vatnsbrunnurinn
og guðshúsið voru gjarnan uppspretta samverustunda hefur látið í minni
pokann fyrir þessum nýju stefnumótastöðum. Ungmenni ólíkra stétta,
hverfa og þjóðfélagshópa hafa eignast nýjan vettvang til að sýna sig og sjá
aðra. Verslunarmiðstöðin gegnir hlutverki „milli-menningar-athvarfs“,
þar sem engin tiltekin gildi eru ráðandi. Flestir sem þangað koma eru ekki
í eiginlegum viðskiptaerindum, heldur í einskonar skoðunarferð. Í stór-
borgarsamfélögum Rómönsku Ameríku klæða unglingar fátækrahverfanna
sig upp, koma saman og reyna að skapa þá rýmislegu rótfestu sem ekki er
lengur að finna innan veggja heimilisins. Ein og sama verslunarmiðstöðin
þjónar alla jafna nokkrum ólíkum borgarhverfum og þar mætast íbúarnir. Í
Sársauka ástarinnar eru það unglingar ólíkra þjóðfélagsstétta og af ólíkum
uppruna sem mætast. Leikstjórinn hefur látið hafa eftir sér að myndinni sé
ætlað að kanna innri mann ungmenna stórborgarsamfélagsins: „Í Mexíkó
viðgengst rasismi sem ekki er mikið talað um. Í þessari mynd tókst að sýna
hvernig hann birtist. Við verðum á hverjum degi vitni að umburðarleysi
gagnvart fátækt, húðlit og klæðaburði eða hvort að þú sért með Downs-
heilkenni eða aðra fötlun.“50
Rétt er að vekja athygli á því að titill myndarinnar felur í sér tungu-
málaleik, Amar te duele þýðir að ástin valdi sársauka en þegar titillinn er
sagður upphátt getur hann einnig hljómað sem Amarte duele, eða að það sé
sársaukafullt að elska þig. Enda er ástarsagan í anda Rómeó og Júlíu, sem
ekki mega unnast sakir uppruna síns og stéttar. Rómeó sem hér heitir
Ulises (Luis Fernando Peña) og Júlía sem hér nefnist Renata (Martha
Higareda) eru af ólíkum uppruna og tilheyra hvort sinni stéttinni. Renata
er af hvítri yfirstétt en Ulises af frumbyggjaættum og vinnur með föður
sínum á götumarkaði nærri verslunarmiðstöðinni. Þau kynnast á „frísvæð-
inu“ sem verslunarmiðstöðin skapar en foreldrar beggja hafna ráðahagn-
um. Rök þeirra eru samhljóma og ítreka óyfirstíganlegan menningarmun
sem bíði þeirra á sameiginlegri vegferð. Eins og fram er komið samkvæmt
50 Sjá viðtal við Fernando Sariñana undir efnisgreininni „expectáculos“ á vefsíðunni
www.eluniversal.com.mx í september 2003 (sótt 8. júlí 2010).
hólmfRíðuR GaRðaRsDóttiR