Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Síða 143
143
RÍKJANDI RÓTLEYSI
Því hefur verið haldið fram að líf nútímamannsins snúist um leit að arfleifð
líkt og sjá má á því að hugtakið varð að lykilþætti í umræðunni um hina
þjóðlegu sjálfsmynd á níunda áratug síðustu aldar en fyrir þann tíma var
hugtakið lítið þekkt. Upp úr 1985 voru birtar greinar þar sem fræðimenn
héldu því fram að nú væri „arfleifð“ alls staðar; í fréttunum, kvikmyndum,
á markaðnum, í genunum. Andrew Higson segir í bók sinni English
Heritage, English Cinema að arfleifð felist annars vegar í því að við lesum
okkur inn í hina sögulegu fortíð og hins vegar hafi hún landafræðilega vídd
og tengist ákveðinni landslagssýn.1 Með arfleifðarmyndum fær fólk til-
finningu fyrir sjálfstæði ensku þjóðarinnar; þetta eru táknrænar sögur um
stétt, kynferði, þjóðerni og sjálfsmynd, sviðsettar í fallegu umhverfi og
húsum sem voru til staðar í Gamla Englandi. Arfleifðarmenning er orðin
að verslunarvöru fyrir neytendur.
En hvers vegna sækir nútímamaðurinn í sögur sem takast á við sjálfs-
mynd þjóðar byggða á viðhorfi til tímans fyrir iðnbyltingu; viðhorfi sem
margir telja byggt á blekkingu eða ljúfsárum söknuði eftir liðnum tíma —
nostalgíu? Sumir greinendur telja að arfleifðarmyndir snúist um ákveðin
vandamál í enskri fortíð og að í þeim megi sjá skarpa gagnrýni á félagsleg
og siðferðileg viðfangsefni í fortíð og nútíð. Í því samhengi er aðallega
horft til stöðu kvenna og samkynhneigðra, eins og hún birtist í myndun-
um, en einnig er ensk nýlendustefna skoðuð og ýmis íhaldssöm viðhorf,
líkt og afstaðan til skilnaðar.2 Þversögnin er þó sú að fortíðarsýn mynd-
anna er einnig talin vera íhaldssöm, nostalgísk og fagnandi og myndin sem
1 Andrew Higson, English Heritage, English Cinema: Costume Drama Since 1980,
ox ford: oxford University Press, 2003, bls. 50.
2 Sjá t.d. Claire Monk, „The British heritage-film debate revisited“, British Historical
alda Björk Valdimarsdóttir
Til Pemberley var förinni heitið
Pride and Prejudice og Brideshead Revisited
í ljósi arfleifðar
Ritið 2/2010, bls. 143–168