Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Síða 144
144
dregin er upp af lífsstíl efri stéttar er sögð tælandi. Þannig telur Higson
líklegt að flestir dvelji við þann lífsstíl sem myndirnar birta, velmegun og
forréttindi efri stéttar (bls. 29).
Arfleifðarmyndir eru gjarnan bornar saman við myndir sviðsettar í
nútímanum sem takast á við fjölmenningarlegt England, oft út frá sýn
ólíkra einstaklinga úr verkamannastétt; myndir eins og Trainspotting (1996,
Danny Boyle) og The Full Monty (1997, Peter Cattaneo). Þeim er þá hafn-
að á þeim forsendum að þær taki ekki á samfélagsmálum líkt og myndir
sem lýsa lífi lægri stétta. Þeir sem hrósa myndunum tala um fegurð þeirra,
gáfuleg viðfangsefni og frábæran leik og stilla þeim upp gegn vinsælum og
oft ofbeldisfullum Hollywood-myndum; andspænis hinu svokallaða rusli.3
Aðrir tala um myndirnar sem flótta frá póstmódernísku fjölmenningarsam-
félagi með sínum félagslegu vandamálum. Þær fæði áhorfandann á blekk-
ingu um stöðugleika á tímum óstöðugleika, sýni fortíðina í uppljómaðri
sveitasælu og dragi fram virðulegan heim þar sem smekkur og skipulag
ríkir.4 Þannig telur Cairns Craig myndirnar geta snúist upp í paródíu og
að í þeim sé öllu sem tilheyri ekki sjálfumglöðum veruleika persónanna
hafnað. Aldrei sé spurt að því hvort þú hafir efni á herberginu heldur
aðeins hvernig útsýnið sé.5
Hér á eftir verða þáttaraðirnar Pride and Prejudice (1995, Simon Lang-
ton, Hroki og hleypidómar) og Brideshead Revisited (1981, Charles Stur ridge,
Aftur til Brideshead) skoðaðar í ljósi arfleifðarmenningar.6 Sérstaklega
verður varpað ljósi á það hvernig persónurnar dragast að arfleifðinni ekki
síður en áhorfendur og hvernig þær neyta hennar líkt og nútímalegir túr-
istar á ferðalagi um sögufræga staði á Englandi. Við verðum vitni að enskri
sveitasælu þegar við sjáum kvenhetju Pride and Prejudice, Elísabetu Bennet
hlaupa um sveitirnar rjóða og heita í skítugum kjólum auk þess sem við
verðum vitni að því hvernig hún upplifir glæsileika ættarsetursins
Cinema, ritstj. Claire Monk og Amy Seargeant, London/New York: Routledge,
2002, bls. 176–198, hér bls. 179–80.
3 Andrew Higson, English Heritage, English Cinema, bls. 70.
4 Sjá viðtökur á arfleifðarmyndum hjá Higson, sama rit, bls. 69–71 og hjá Monk í
„The British heritage-film debate revisited“, bls. 180–1.
5 Cairns Craig, „Rooms Without a View“, Film/Literature/Heritage: A Sight and
Sound Reader, ritstj. Ginette Vincendeau, London: bfi Publishing, 2001, bls. 3–6,
hér bls. 3–4.
6 Í fræðilegri umfjöllun um arfleifðarmenningu og afþreyingariðnað er ekki gerður
greinarmunur á sjónvarpsþáttaröðum og kvikmyndum. Hér verða því sjónvarps-
þáttaraðirnar lesnar í ljósi kenninga um arfleifðarmyndir.
alDa BjöRK ValDimaRsDóttiR