Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Qupperneq 145
145
Pemberley. Á svipaðan hátt upphefur Charles Ryder í Brideshead Revisited
ættarsetrið og skoðar það uppnuminn af listfengi þess.
I. „Skóli Lauru Ashley í kvikmyndagerð“
Arfleifðarmyndir eru búningamyndir, gerðar á síðustu 30 árum, yfirleitt
byggðar á frægum klassískum skáldsögum, en þó einnig leikritum (Forster,
Austen, Balzac, Dumas, Hugo, Zola, Shakespeare). Flestar eru þessar
myndir evrópskar en á níunda áratugnum urðu þær alþjóðlegri og til að
mynda hafa einnig verið gerðar margar bandarískar myndir.
Til fyrstu kynslóðar arfleifðarmynda teljast myndir á borð við Chariots
of Fire (1981, Hugh Hudson), Another Country (1984, Marek Kanievska), A
Passage to India (1984, David Lean), Jean de Floreette (1986, Claude Berri),
Babettes Gæstebud (1987, Gabriel Axel) og Where Angels Fear to Tread (1991,
Charles Sturridge). Þá má nefna hinar frægu E. M. Forster aðlaganir,
framleiddar af Merchant-Ivory,7 undir leikstjórn James Ivory, A Room
With a View (1985), Maurice (1987) og Howards End (1992).
Áhuginn á búningamyndum um enska efri stétt fór af stað með miklum
látum með sjónvarpsþáttaröðinni Brideshead Revisited (1981) og með kvik-
myndinni Chariots of Fire. Viðtökurnar á þessum myndum einkenndust af
þjóðlegri tilfinningasemi.8 Um er að ræða sósíaldrama með raunsæisein-
kennum í tíðarandasviðsetningu. Viðfangsefni arfleifðarmynda er yfirleitt
rómantískt; örlögum, hindrunum, tilviljunum á vegi ástarinnar er lýst en
tilfinningar persónanna eru oftar en ekki lausar við óhóf og hefur það
verið tengt við settlegt tilfinningalíf Breta.9 Aðrir segja að myndirnar lýsi
kynferðislegri bælingu; þær séu líkamalausar og óhæfar um að tjá tilfinn-
ingar.10
Sjónarhorn kvenna kemur skýrt fram í arfleifðarmyndum, enda eru
konur stærsti áhorfendahópurinn. Í myndunum fær hin kvenlega rödd
gjarnan hljómgrunn, skapað er kvenlegt samfélag og þrá kvenna fær útrás.
Konur taka sömuleiðis ríkan þátt í gerð myndanna; þær eru höfundar
skáldsagnanna, skrifa handritin, eru leikstjórar eða framleiðendur. Margar
7 Um er að ræða leikstjórann James Ivory og framleiðandann Ismail Merchant sem
stofnuðu kvikmyndafyrirtækið Merchant-Ivory árið 1961.
8 Andrew Higson, English Heritage, English Cinema, bls. 15.
9 Í „Feeling English“ segir Richard Dyer að enskar kvikmyndir segi gjarna sögur af
fólki sem er tilfinningalega bælt eða heldur aftur af sér; sögurnar fjalla þá oft um
það hvernig þessar tilfinningar fá útrás. Sjá Sight and Sound mars 1994, bls. 16.
10 Andrew Higson, English Heritage, English Cinema, bls. 46–7.
TIL PEMBERLEY VAR FöRINNI HEITIð