Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Síða 149
149
þjóðararfleifð. 3) Myndirnar hafi verið gagnrýndar fyrir að sýna aðeins
tælandi yfirborðið á hinni borgaralegu fortíð og að sú fjárhagslega staða sem
þær dragi fram sé ekki skoðuð í sögulegu samhengi (bls. 179).
Monk segir gagnrýnendur tengja saman fagurfræðilegar og hugmynda-
fræðilegar kröfur og að pólitísk gagnrýni fléttist saman við fagurfræðilega
og menningarlega andúð á myndunum. Hún telur arfleifðarstimpillinn þó
frekar tengjast því hversu auðvelt hafi verið að flytja myndirnar til
Bandaríkjanna, en því sem þær eiga sameiginlegt fagurfræðilega og hug-
myndafræðilega. Hún setur spurningarmerki við það að myndirnar séu
markaðssettar sem „menning“ fremur en söluvara og bendir á þá miklu
auglýsingaherferð sem farið var í fyrir hönd „breskra“ mynda á tíunda
áratugnum og leiddi t.d. til vinsælda Sense and Sensibility (1996, Ang Lee)
og Shakespeare in Love (1999, John Madden) sem voru m.a. fjármagnaðar af
bandarískum sjóðum. Arfleifðarstimpillinn gefi til kynna að myndirnar séu
fagurfræðilega, hugmyndafræðilega og þematískt ólíkar Hollywood-
myndum. En þá sé litið framhjá vinsældum arfleifðarmyndanna í
Bandaríkjunum, t.d. Chariots of Fire og A Room with a View, sem auk þess
voru margverðlaunaðar. Jafnframt sé vafasamt að setja þessar tvær myndir
undir sama hatt þegar þær séu þematískt, hugmyndafræðilega og fagur-
fræðilega ólíkar og höfði til mismunandi áhorfenda (bls. 180–1).
Monk segir að breskar tíðarandamyndir séu svo ólíkar að ekki sé hægt
að segja að þær tilheyri sömu greininni. Þetta eru melódrama, rómönsur,
gamanmyndir, satírur, fantasíur, glæpasögur, ævintýramyndir, spennu-
myndir, epískar sögur, stríðsmyndir, hryllingsmyndir eða blanda af ein-
hverju þessu. Það sé því mjög óljóst hvað arfleifðarhugtakið merki í raun
og veru og algjörlega litið framhjá því hvernig áhorfendur upplifa mynd-
irnar. Einnig má benda á að sú hugsun er að einhverju leyti einkennileg að
forréttindi, lífsstíll og velmegun efri stéttar í fortíðinni hafi eitthvað með
arfleifð að gera og varpa má fram þeirri spurningu hvers vegna þessi for-
réttindahópur segi okkur eitthvað um sjálfsmynd Breta.
Hinn dyggilegi fjárstuðningur sem myndirnar hljóta frá Bandaríkjunum
og sú staðreynd að margir aðrir en Bretar koma að gerð myndanna dregur
hugsanlega úr hugmyndinni að um „breskar“ myndir sé að ræða. Banda-
ríski markaðurinn hefur verið gríðarlega mikilvægur fyrir búningamyndir
og hafa framleiðendur arfleifðarmynda gert breskt viðfangsefni að ein-
hverju sem auðvelt er að markaðssetja í Bandaríkjunum.22
22 Andrew Higson, English Heritage, English Cinema, bls. 119.
TIL PEMBERLEY VAR FöRINNI HEITIð