Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Side 152
152
lagið er stór hluti af myndinni.25 Sveitin sem sýnd er í sjónvarpsþáttaröð-
inni með ökrum og limgerðum er talin dæmigerð fyrir tímabilið og þannig
er „Gamla England“ dregið fram. Áhorfendur njóta að sama skapi lands-
lagsins í formi enskrar sveitasælu. BBC-sjónvarpsþáttaröðin hefst á senu
sem er ekki að finna í skáldsögu Austen. Bingley (Crispin Bonham-Carter)
og Darcy (Colin Firth) þeysa um sveitirnar á hestbaki í átt að Netherfield
Park. Bingley ákveður að leigja húsið og næsta skot er af Elísabetu þar sem
hún horfir á mennina úr fjarlægð. Í þáttaröðinni er sérstök áhersla lögð á
að tengja saman náttúru, sveitasælu og kynorku. Landslag í Pride and
Prejudice er tákn um þrá og þjónar kynferðislegum tilgangi. Í viðtali við
Andrew Davies, handritshöfund þáttaraðarinnar segir hann að kynferðis-
leg orka Elísabetar sé gefin til kynna þegar hún hleypur um sveitina, en
þegar hún sér mennina byrjar hún að valhoppa. Einnig segir hann að skot-
ið af merinni og folaldinu sem fylgir í kjölfarið eigi að gefa til kynna frjó-
semi (Pride and Prejudice, BBC).
Elísabet á í ástríðufullu sambandi við náttúruna. Hún er rjóð í kinnum,
sólbrún og skítug, og er sama um álit annarra. Viðbrögðin sem Elísabet
vekur þegar hún gengur síðar í þáttaröðinni yfir drullupolla á leið sinni til
Netherfield Park þar sem systir hennar liggur veik má sjá á eftirfarandi
samræðum systra Bingleys. Mrs. Hurts (Lucy Robinson) segir: „Í stuttu
máli sagt hefur hún ekkert við sig nema hvað hún er mikill göngugarpur.
Ég gleymi því aldrei hvernig hún leit út í morgun. Hún var nærri því eins
og villimaður.“ Fröken Bingley (Anna Chancellor) svarar: „Af hverju þarf
hún að æða yfir hvað sem fyrir er þó systir hennar fái kvef? Hárið á henni
allt í óreiðu, vindblásið! […] og millipilsið hennar; ég vona að þið hafið
tekið eftir millipilsinu hennar, það var sex þumlunga forarrönd neðan á
því“ (bls. 30).
En Darcy hrífst af útgeislun Elísabetar og þegar fröken Bingley spyr
Darcy hvað honum finnist nú um fallegu augun hennar svarar hann: „þau
voru ennþá skærari eftir gönguna“ (bls. 31). Í samræðunum og svari
Darcys má sjá hvernig kynorka, hreyfing og náttúra eru tvinnuð saman
auk þess sem framkoma Elísabetar gefur til kynna sjálfstæði. Frjálslegt,
náttúrulegt lundarfar hennar er síðan undirstrikað í senu sem ekki er að
finna í bókinni. Darcy stígur upp úr baði, gengur að glugga og horfir stíft
á Elísabetu þar sem hún leikur sér við hund úti í grænni náttúrunni. Til
25 Pride and Prejudice (Hroki og hleypidómar), höf.: Jane Austen, handrit: Andrew
Davies, leikstj.: Simon-Langton, framl.: Sue Birtwistle, BBC Television, 1995.
alDa BjöRK ValDimaRsDóttiR