Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Page 160
160
innar, þema hennar hljómar undir hugleiðingum hans og svipur hans
verður mýkri.
Áhorfendur skynja að staðurinn kveikir eitthvað innra með honum sem
er djúpt grafið; dregur fram minningar um atburði sem komu honum
þangað sem hann er staddur núna. Hann setur á sig kaskeitið og lagar það
til á höfðinu eins og hann sé að setja sig í stellingar; votta fortíðinni virð-
ingu sína: „gríðarleg þögn fylgdi í kjölfarið, fyrst innantóm, en smám
saman fylltist hún, um leið og ég náði valdi yfir ofbeldisfullri skynjun
minni, marglaga, sætum og löngu gleymdum hljóðum“.39 Tónlistin og
orð Charles gefa til kynna að minningarnar um þessa atburði séu ljúfsárar
og að þær kallist á við hugsanir hans í upphafsskotinu um að hann sé orð-
inn gamall, aðeins 39 ára að aldri. Áhorfendur sjá ættarsetrið Brideshead
fyrst á gráum, skýjuðum degi þar sem það rís fyrir aftan dökkgrænan her-
mannabíl og virðist vera í niðurníðslu.
Fortíðarþrá Charles Ryder verður fortíðarþrá áhorfandans sem langar
að sjá setrið áður en herinn setti upp bækistöðvar þar og heyra hina ljúf-
sáru sögu sem tilheyrir því. Í sögunni vekur niðurnítt setrið upp minningu
af því á dýrðartíma sínum. Líkt og í sjónvarpsþáttaröðinni Pride and
Prejudice er persónan rétt eins og áhorfendur neytandi arfleifðar. Charles
Ryder skoðar ættarsetrið, innanhússmuni þess og málverk af svo miklum
áhuga að það jaðrar við þráhyggju og minnir að einhverju leyti á Elísabetu
meðan hún meðtekur ljóma Pemberley.
Higson telur eitt megineinkenni arfleifðarmynda vera að arfleifðar-
menningin birtist þar sem stíf og ósveigjanleg; hún sé frosin og aðeins til
sem skraut fyrir sviðsetningu á ástarsögunni. Söguleg frásögn verði sýning
fyrir augað; arfurinn birtist sem ofgnótt þar sem hann tilheyri ekki frá-
sögninni eða sögusviðinu. Í mörgum myndunum sé verið að fagna ein-
hverju og við verðum vitni að rausnarlegum matarboðum eða dansleikjum
sem gefi tilefni til þess að sýna dýrindis matarstell eða mat, mikilfenglega
búninga eða hárgreiðslur (bls. 38–9).
Hugsanlega gegna minningar Charles frá oxford slíku hlutverki, en í
endurminningunni er barokkhlaðinn háskólabærinn sýndur baðaður
mjúkri birtu á meðan Charles minnist sumarstundanna þar: „Á breiðum
og hljóðlátum strætum gengu menn og töluðu rétt eins og þeir gerðu á
tímum Newmans; […] á þessum degi þegar kastanían var í blóma og bjöll-
39 „[An] immense silence followed, empty at first, but gradually, as my outraged
sense regained authority, full of multidute of sweet and natural and long forgotten
sounds.“ (bls. 21)
alDa BjöRK ValDimaRsDóttiR