Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Side 179
179
verk sem gott dæmi um slíkt. Hér er sjálfið tjáð með ólíkum þáttum fengn-
um úr ýmsum menningarheimum. Það er ekki stöðugt og heildstætt í
hefðbundnum skilningi, heldur býr yfir ýmsum ólíkum birtingarmyndum,
sem byggja einmitt á sambandi og samblöndu menninga.
Í upphafi nefndi ég gagnrýni Hamid sem taldi myndina vera „bara“
uppvaxtarsögu, en ekki skoðun á atburðum og pólitísku landslagi í Íran.
En kannski hefur Satrapi einmitt notað hér tækifærið og náð að koma sér
úr þeirri klemmu sem hún var í eftir Vínarferðina, þ.e. hremmingar henn-
ar þar voru einstaklingsbundnar og ómerkilegar (eins og hún segir í kvik-
myndinni, „ég hafði lifað af byltingu, kúgun og stríð en það var ómerkilegt
ástarævintýri sem fór með mig“, eins og ég ræddi hér að ofan) í ljósi
heims viðburða og milljóna látinna. Á þann hátt skipta hversdagslegir at-
burðir líkt og að þroskast og vaxa úr grasi og verða ástfangin máli, jafnvel
mitt í stórsögulegum viðburðum. oft verður vart við þá kröfu frá lesend-
um að fólk af ákveðnu þjóðarbroti, kyni eða etnískum uppruna, tjái sig á
ákveðinn máta og tilhneiging er til að lesa slík verk sem dæmigerð fyrir
þann hóp sem um ræðir. En einmitt þegar hversdeginum er haldið á lofti
andspænis hörmungum, geta verkin fært okkur nær atburðunum og burt
frá hefðbundnum skiptingum í okkur og hina.
Eins og Homi Bhabha hefur bent á verður til það sem hann kallar
þriðja svæðið í blöndun menningarheima þar sem sköpunin verður, í
miðjum hræringunum er frjósemin og krafturinn — en sumir upplifa þetta
þriðja svæði, þessa blöndun, sem ógnun við einhvern ímyndaðan hrein-
leika menningar.18 Viðbrögð við myndinni Persepolis sýna að einhverju
leyti slíka hræðslu — hvað verður úr þegar Catherine Deneuve ljáir
íranskri konu rödd sína? Er þetta tóm upphafning á vestrænum gildum og
klisjukennd staðalmynd af íslam? Eða er það einmitt í þessari blöndu sem
hið óvænta á sér stað, það sem hristir upp í okkur og hvetur okkur til að sjá
yfir menningarleg landamæri og þá blöndun sem er einmitt ekki ný af nál-
inni heldur hefur gerjast í aldir, eins og raunin er bæði í menningarheim-
um Írans og Evrópu.
18 Sjá t.d. Homi Bhabha, „Tvístrun þjóðarinnar: tími, frásögn og jaðar nútíma-
þjóðarinnar“, þýð. Steinunn Haraldsdóttir, Ritið 2005/2, bls. 177–220. Sjá einnig
grein Jóns Ólafssonar, „Austur, vestur og ógnin við fjölmenningu“, Ritið 2007/2-3,
bls. 37–56.
SJÁLFSMYND Í KVIKMYND