Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Qupperneq 183
183
um hryðjuverk kemur. Höfundar bókarinnar hafna því hins vegar að þessi
aðgreining sé algild og að ekki megi ræða þessar tvær miðlunaraðferðir í
sömu andrá. Afstaða þeirra byggist á því að „skýrari heildarmynd fæst
þegar [mögulegt] er að rekja orðræðutegundir, ímyndir og skýringar“ á
milli ólíkra en samtvinnaðra efnisflokka „á borð við skáldaðs og frétta-
tengds dagskrárefnis“.1 Undir þessi sjónarmið taka greinarhöfundar en
hér á eftir verða tengslin milli hinna „hlutlausu“ fréttamiðla nútímans og
svokallaðra „afþreyingarafurða“ menningariðnaðarins könnuð í samhengi
við hryðjuverkaárásirnar ellefta september 2001. Spurningum verður
varpað fram um hlutverk myndmiðla í menningarlegri mótun hryðju-
verkahugtaksins og fjallað verður um tengsl fjölmiðla og kvikmynda þegar
kemur að miðlun raunverulegra atburða. Þar verður kvikmyndin World
Trade Center skoðuð í samhengi við þær orðræður sem hafa reynst áber-
andi í umfjöllun um hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin. Til samanburðar
verður jafnframt fjallað um kvikmyndina United 93 (2006) eftir Paul
Greengrass og hið alþjóðlega samvinnuverkefni 11'09''01 (2002) sem talist
getur fyrsta leikna kvikmyndin um viðburðina sem framleidd var til víð-
tækrar dreifingar í kvikmyndahúsum. Hugmyndafræðin sem liggur þess-
um myndum til grundvallar verður greind og sett í samhengi við menn-
ingarlega „árekstra“ af ýmsum toga.
Það sem öðru fremur vekur áhuga hér er það sem við köllum virkni
sviðsetningarinnar í merkingarsköpun hryðjuverka, þar sem miðlun eða
„dreifing“ þeirra á sér ekki síst stað í krafti sjónarspils og sláandi ímynda.2
Hugtakið sjónarspil á sér einnig mikilvæga sögu í umræðu um kvikmyndir,
og þá ekki síst Hollywood-myndir en hið sviðsetta sjónarspil þykir eitt
helsta einkenni þeirra.3 Þá hefur verið bent á að sjónarspil hamfaramynda
hafi í raun verið sú líking sem fólk greip til þegar það lýsti upplifuninni á
1 Philip Schlesinger, Graham Murdock og Philip Elliott, Televising Terrorism: Political
Violence in Popular Culture, London: Comedia Publishing Group, 1982, bls. 33.
2 Sviðsetningarhugtakið hefur öðlast aukið vægi sem greiningartæki á ýmsum þátt-
um samtímamenningar á undanförnum árum. Sjá Guy Debord, The Society of the
Spectacle, þýð. Donald Nicholson-Smith, New York: Zone Books, 1994; Jean
Baudrillard, Simulacra and Simulation, Ann Arbor: University of Michigan Press,
1995; Douglas Kellner, The Persian Gulf TV War, Boulder: Westview Press, 1992;
Carol Becker, Surpassing the Spectacle, Boulder: Rowman and Littlefield, 2002 og
Slavoj Žižek, Welcome to the Desert of the Real, London: Verso, 2002.
3 Um það fjallar m.a. Dan North í Performing Illusions: Cinema, Special Effects and the
Virtual Actor, London: Wallflower, 2008.
RÁNYRKJA ÍMYNDARINNAR