Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Síða 189
189
fallslegu samræmi við áhrifasvæðið sem verður til í útbreiðslu- og fjölmiðl-
unarferlinu, þeirri umræðu sem skapast og óttanum sem hryðjuverkið
vekur. Þannig er miðlunin sjálf innlimuð í atburðarásina. Bandaríski
menningarfræðingurinn Henry A. Giroux hefur í þessu samhengi fjallað
um hvernig ríkisstjórn George W. Bush notaði hryðjuverkaárásirnar til
framdráttar hugmyndafræðilegum baráttumálum sínum. Þannig tengir
hann hryðjuverkastríðið við sjónarspil hryðjuverksins og bendir á hvernig
hið síðarnefnda „smitast“ um menningarlandslagið. Þetta á sér stað bæði í
formi almennrar fjölmiðlunar, þar sem hernaðaraðgerðum í Mið-
Austurlöndum er miðlað á forsendum sjónarspilsins (þess sem á ensku er
vísað til sem shock and awe-aðferð), og þeirra umbreytinga sem eiga sér
stað á grundvallarstoðum réttarríkisins þegar sjónarspil hryðjuverksins
tekur að móta umsýslu hins opinbera. Þar hefur Giroux einkum í huga til-
færslu á gildum sem birtast m.a. í því að ríkisvaldið tekur í auknum mæli að
færa sig út fyrir ramma laganna (og nær eðli hryðjuverksins) og því að hug-
sjónir um samfélagslegt réttlæti taka að víkja fyrir táknmyndum dauða,
ótta og eyðileggingar. Pólitísk orðræða tekur breytingum og þjóðfélag ótta
og tortryggni verður til en vettvangurinn fyrir þessar umbreytingar er að
sögn Giroux „vígvöllur ímyndanna“. Baráttan um hugmyndalegt forræði
fer fram í kvöldfréttum sjónvarpsins og birtist e.t.v. skýrast í því að svið-
setningar á pólitískum yfirlýsingum vega þyngra en inntak þeirra.18
hollywood og hið mímetíska ímyndastríð
Bandaríski stjórnmálafræðingurinn James Derian hefur lagt út af hug-
myndinni um ímyndavettvanginn sem átakasvæði. Hinu svokallaða
„hryðjuverkastríði“ má að hans mati lýsa sem „netstríði“ — því vindur
m.a. fram á netinu (t.d. með dreifingu aftökumyndbanda), það er að nafn-
inu til háð gegn óljósu neti hryðjuverkahópa, og hið hnattræna net fjöl-
miðla og samskiptarása myndar bakgrunn þess. Í nánari skilgreiningu
ræðir Derian um „hið mímetíska ímyndastríð“ (e. mimetic war of images),
og vísar þar til þess hvernig sjálfsmynd og skilningur á öðrum, hinu fjar-
læga og ókunnuga, eru mótuð á sviði eftirlíkinga, framsetningar og boð-
skipta. Ímyndir móta viðhorf, þær geta ýtt undir vinsemd ellegar alið á
fjandskap og tortryggni. Hið mímetíska ímyndastríð:
18 Henry A. Giroux, Beyond the Spectacle of Terrorism: Global Uncertainty and the
Challenge of the New Media, Boulder og London: Paradigm Publishers, 2005, bls.
24–5 og 54.
RÁNYRKJA ÍMYNDARINNAR