Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Síða 194
194
sporna við ásökunum um „rányrkju ímyndarinnar“. Áhugavert er í því
sambandi að velta fyrir sér hvers konar fyrirvarar eru byggðir inn í nálgun
kvikmyndanna við harmleikinn, því að það er einmitt á þessu stigi sem
átök í merkingarmiðlun og túlkun hins upphaflega atburðar virkjast.29
Þannig er athyglisvert að Hollywood-myndirnar tvær og 11'09''01 (2002)
forðast allar að beina sjónum áhorfenda að hamförunum eins og fréttaveit-
ur miðluðu þeim á árásardaginn og í kjölfar hans, þ.e. að sjónarspilinu í
kringum tortímingu og hrun Tvíburaturnanna, en leitast þess í stað við að
segja skáldaðar eða sannsögulegar sögur einstaklinga eða hópa fólks sem
tengdust atburðunum beint eða óbeint. Bannið sem allar myndirnar gefa
sig út fyrir að virða er því að endursviðsetja sjónarspil hryðjuverkaárásanna
og falla þannig fyrir þeirri „freistingu“ að fullskapa eða endurskapa þá
„ham farakvikmynd“ sem hryðjuverkamennirnir lögðu drög að. Sú orð-
ræða nærgætni og varfærni sem myndirnar þræða sig eftir er hins vegar
vandkvæðum bundin og að mörgu leyti þversagnakennd og tengist það
þeim hugmyndafræðilegu skírskotunum sem finna má í nálgunaraðferð
hverrar myndar fyrir sig.
11'09''01 felur í sér áhugavert mótvægi við Hollywood-kvikmyndirnar
sem verða ræddar hér á eftir, en nálgun hennar er að mörgu leyti frábrugð-
in þeirri skýru viðleitni til hugmyndafræðilegrar umsköpunar og þar af
leiðandi „mótsvars“ við höggi hryðjuverkaárásanna sem einkennir þær
síðarnefndu. Formgerð 11'09''01 felur í sér sterka fyrirvara, því að hún
dregur athygli að þeirri staðreynd að þar sé ekki gerð tilraun til þess að
skapa ímynd milliliðalausrar veruleikalíkingar. Myndin er samvinnuverk
sem samanstendur af ellefu stuttmyndum eftir jafnmarga leikstjóra, og
eiga allar myndirnar ákveðin þemu og formgerðarskilyrði sameiginleg.30
Annars vegar takast þær allar á við framvindu, merkingu og/eða afleiðing-
ar hryðjuverkaárásanna, og hins vegar eru þær ellefu mínútur, níu sekúnd-
ur og einn rammi að lengd. Þannig er miðað að því að skapa margbrotið
sjónarhorn á atburðina og unnið er gegn einsleitri eða alhæfandi túlkun.
Hugmyndin um kvikmyndamiðilinn sem vettvang „samræðu“ er sett í for-
29 Slavoj Žižek fjallar um ýmsar birtingarmyndir þeirra þversagnakenndu aðferða
sem notaðar eru til að réttlæta tilteknar nálgunarleiðir í umræðu um hryðjuverka-
árásirnar og aðra harmleiki. Sjá Welcome to the Desert of the Real, bls. 50–53 og
112–135.
30 Leikstjórarnir eru Youssef Chahine, Amos Gitai, Alejandro González Iñárritu,
Shohei Imamura, Claude Lelouch, Ken Loach, Samira Makhmalbaf, Mira Nair,
Idrissa ouedraogo, Sean Penn og Danis Tanovic.
BJöRN ÞÓR VILHJÁLMSSoN oG HEIðA JÓHANNSDÓTTIR