Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Page 205
205
draga upp nákvæma og sanna mynd af atburðunum og sýna nærgætni á
öllum stigum. Þannig voru ýmsar ákvarðanir teknar í samráði við Mc -
Loughlin og Jimeno, varðandi allt frá tæknilegum atriðum til spurninga
um málfar. Að sögn Stone fullmótuðust bæði handritið og sviðsmyndin í
þessu vinnuferli. Auk þess að veita ráðgjöf komu lögreglu- og slökkviliðs-
mennirnir sem tóku þátt í björgun Jimeno og McLoughlin fram í björg-
unaratriðinu við lok myndarinnar. Sjálfir birtast þeir Jimeno og McLoughlin
stuttlega í myndinni, og er með þessu að nokkru leyti róið á sömu mið og
gert er í United 93 þar sem leitast er við að skapa tengsl við veruleikann
með nærveru hinna raunverulegu fyrirmynda.
Í kynningarmyndinni er sjálf gerð myndarinnar jafnframt framsett sem
mikilvægt heilunarferli fyrir fólkið sem sagan segir frá. Þannig er rætt við
þá sem voru á vettvangi í kjölfar hryðjuverkaárásanna um þá reynslu að sjá
þá gríðarstóru leikmynd sem byggð var sem eftirlíking af hluta rústasvæð-
isins. Viðmælendur lýsa því hvernig sú reynsla fékk þá til að endurlifa erf-
iðleika björgunarstarfsins og óhugnað dagsins, en að sama skapi hafi hið
örugga umhverfi kvikmyndaverkefnisins gert þeim kleift að takast á við
óuppgerðar tilfinningar. Virkni sviðsetningarinnar færist þannig af sviði
fjölmiðlunar og ímyndarinnar og er staðsett í sjálfri upplifuninni á svið-
setningunni, virknin verður að sálfræðilegu afli í vitundinni þar sem ein-
staklingurinn stendur í vissum skilningi andspænis fortíðinni. Þannig er
horfið aftur til fortíðar í krafti tæknivæddrar endursköpunar á vettvangi
áfallsins og minnir þessi tilfærsla nokkuð á kenningar sálgreiningarinnar
um mátt og mikilvægi endurtekningarinnar. Í ritgerðinni „Remembering,
Repeating and Working Through“ lýsir Freud t.d. „ókennilegri“ hneigð
þess sem orðið hefur fyrir áfalli til að hringsóla í sífellu umhverfis atburð-
inn og endurvekja áfallið, t.d. í draumum, en ásókn undirvitundarinnar í
hið skaðlega og hryllilega er í skýrri mótsögn við kenningar Freuds um
„óskauppfyllingu“ drauma og „velllíðunarlögmálið“. Freud skýrir þessa
sjálfseyðandi hneigð á þann veg að sjálfið sé enn ekki búið að vinna sig í
gegnum áfallið og sæki því í hina erfiðu fortíðarreynslu aftur og aftur.
Sálgreinandinn stígur hér inn í hlutverk leiðsögumanns um fortíðina og
sjúklingurinn hverfur aftur á slóðir áfallsins í fylgd læknisins í því augna-
miði að knýja fram meðvitaða úrvinnslu á eftirköstunum.39 Í samhengi
39 Sigmund Freud, „Remembering, Repeating and Working Through“, The Standard
Edition of the Complete Psychological Works of Sigmund Freud, 12. bindi, þýð. James
Strachey, London: Hogarth Press and Institute of Psychoanalysis, 1953–74, bls.
147–156.
RÁNYRKJA ÍMYNDARINNAR