Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Page 208
208
framt skapar frásagnarlega ástæðu eða réttlætingu fyrir „glápi“ bíógestsins.
Kvikmyndin er vörðuð atriðum sem þjóna því hlutverki að miðla mynd-
efni af þungbærustu viðburðum og ímyndum árásardagsins, en þau eru
jafnframt sett í samhengi sem túlkar þátt fjölmiðlanna í miðlun hryðju-
verkanna og tekur ákveðna afstöðu til þeirra. Þannig er hugmyndin um
óvirkt gláp og áhorf sjónarspilsins vegna t.d. gagnrýnd innan söguheims-
ins, líkt og þegar ein sögupersóna kvartar yfir því að sjónvarpsstöðvarnar
endursýni fall turnanna linnulaust í stað þess að koma á framfæri áríðandi
upplýsingum. Hugmyndinni um að fara á vettvang og aðstoða við björg-
unina er jafnframt stefnt gegn óvirku glápi á fréttaflutning, en Donna og
sonur hennar eru t.d. nýbúin að taka þá ákvörðun að halda á vettvang árás-
anna til að leita að fjölskylduföðurnum þegar fréttir af björguninni berast.
Þeysireiðinni um jarðarkringluna, sem sýnir viðbrögð fólks víðs vegar um
heim við hryðjuverkunum, lýkur „heima“ í Bandaríkjunum, nánar tiltekið
í Sheboygan í Mið-Vesturríkinu Wisconsin, þar sem hópur lögreglumanna
situr á matstofu og fylgist með fréttunum af árásinni á Pentagon. Í stað
gráts eða vantrúar bregst lögreglumaðurinn sem myndavélin staðnæmist
við með reiði sem brýst fram í upphrópuninni „skítseiðin!“ (e. bastards).
Þegar vikið er að björgunarstarfinu í síðari hluta myndarinnar kemur á
daginn að löggurnar hafa ekki setið auðum höndum, heldur mætt á rústa-
svæðið þar sem þeir bjóða björgunarliðinu upp á kaffi og gæðapylsur frá
Wisconsin.
Í umræddu myndfléttuatriði þar sem ferðast er um heiminn eftir öldum
ljósvakans til þess að skrásetja viðbrögð fólks um allan heim við frétta-
myndum hryðjuverkaárásanna, er jafnframt að finna skýra umsköpun eða
endurtúlkun á virkni miðlunarinnar á árásunum sem kvikmyndin World
Trade Center leitast við að halda á lofti. Líkt og bent var á í upphafi grein-
arinnar setur atriðið fram þá hugmynd að árásirnar hafi ekki aðeins orðið
að hnattrænum viðburði, heldur hafi þær falið í sér hnattrænt áfall. Áhersla
er lögð á að birta samúð og sorg í viðbrögðum áhorfenda og áheyrenda
fréttaflutnings af viðburðunum. Þannig hafi árásirnar orðið til þess að
heimsbyggðin stóð saman og lagði ágreiningsmál sín til hliðar, þökk sé
greiðum miðlunarbrautum hnattvæddra fjölmiðla. Fréttaatriðið má jafn-
framt lesa sem sögu innan sögunnar sem túlkar og skírskotar til áhrifa-
máttar Hollywood-kvikmyndarinnar World Trade Center sem framleidd er
af stóru kvikmyndafyrirtæki með víðtæka dreifingu í Bandaríkjunum og á
erlendum mörkuðum. Þannig færist sjónarhorn myndavélarinnar úr inni-
BJöRN ÞÓR VILHJÁLMSSoN oG HEIðA JÓHANNSDÓTTIR