Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2010, Qupperneq 212
212
borð við Írak í nafni hryðjuverkastríðsins.42 Upphafning persónu Karnes í
myndinni og samsömun við þær trúarlegu forsendur sem hann gaf sjálfur
fyrir för sinni á vettvang rústanna, nær hámarki í samskeytingu þar sem
mynd af Karnes á rústasvæðinu með vasaljós í hönd, rennur saman við í
draumsýn Jimeno af Kristi böðuðum skæru ljósi. Með þessum hætti er
guðleg réttlæting hryðjuverkastríðsins áréttuð og í ljósi þess að Karnes
hélt því næst til Írak réttlætir Stone þá tilhæfulausu söguskoðun í Banda-
ríkjunum á þessum árum að tengsl hafi mátt finna milli Saddam Hussein
og hryðjuverkaárásanna. Þá er einnig athyglisvert að beina sjónum að
þeim hugmyndum um virka og óvirka karlmennsku sem köllun Karnes ber
með sér en ókarlmannlegu skrifstofustarfinu er stefnt gegn hermanninum
sem vaknar af dvala við hryðjuverkaárásina.43 Þessi tvenndarhyggja endur-
speglar áherslu myndarinnar á skiptingu sögusviðsins í átakasvæði karl-
manna, sem er Manhattan-eyja útfærð sem stríðssvæði, á móti svæði heim-
ilis, umönnunar og barnauppeldis, en það tilheyrir konunum sem bíða
fregna af eiginmönnum sínum. Í atriðum frá vettvangi árásanna er konur
hvergi að sjá meðal björgunarmanna, þær eru aðeins í hlutverki fórnar-
lamba. Þetta er dæmi um víðtækari framsetningarhefð á björgunarstarfinu
í fjölmiðlum sem Susan Faludi hefur gert að umfjöllunarefni og gagnrýnt,
en hún hefur sýnt fram á hvernig konur í röðum slökkviliðs- og löggæslu-
yfirvalda tóku ríkan þátt í hættulegum björgunaraðgerðum dagsins, en er
hvergi getið nema sem fórnarlamba.44
42 Gagnlega umfjöllun um eftirköst hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin, stríðin sem í
kjölfarið hafa verið háð, og þá trúarlegu hugmyndafræði sem notuð var sem aflvaki
fyrir aðgerðaráætlun stjórnvalda (og birtist m.a. í tungutaki forsetans sem vísaði til
„krossferða“ þegar viðbrögð Bandaríkjanna bar á góma) er að finna í Noam
Chomsky, Gilbert Achcar og Stephen R. Shalom, Perilous Power: The Middle East
and U.S. Foreign Policy: Dialogues on Terror, Democracy, War, and Justice, London:
Hamish Hamilton, 2007. Forsetaþríleikur blaðamannsins Bob Woodward þykir
nokkuð merkileg heimild um þankagang Hvíta hússins á þessum árum, sjá einkum
Bush at War, New York: Simon and Schuster, 2003. Ein skýrasta heimild sem til er
um fjölmörg mistök Bandaríkjastjórnar í aðdraganda innrásarinnar í Írak er Hans
Blix, Disarming Iraq: The Search for Weapons of Mass Destruction, London: Blooms-
bury Publishing, 2005.
43 Hér er einnig um kunnuglegt minni úr frásagnarformgerð hasarmynda að ræða,
sjá Heiða Jóhannsdóttir, „Frásagnarformgerð hasarmynda“.
44 Faludi, The Terror Dream, bls. 76-79.
BJöRN ÞÓR VILHJÁLMSSoN oG HEIðA JÓHANNSDÓTTIR