Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Qupperneq 25
25
GEST BER AÐ GARÐI
Fagurt galaði fuglinn sá
Þótt tjáningarháttur Poes í kvæði þessu sé um margt sérstakur, voru form-
einkenni þess og hrynjandi í sjálfu sér ekki ný af nálinni á sköpunartíma
ljóðsins. Elizabeth Barrett Browning (1806-1861) hefur stundum verið
tilgreind sem áhrifavaldur, enda fór Poe ekki dult með aðdáun sína á
ljóðum þessa breska skálds. Nefnt hefur verið að ljóðabálkur hennar, „Lady
Geraldine´s Courtship“, sé viss fyrirmynd „Hrafnsins“ hvað bragform
varðar.13 Meginhrynjandin er vissulega svipuð og í kvæði Poes. Hvert erindi
í kvæði Barrett Browning er þó einungis fjórar línur í enska forminu, þ.e.
átta línur samkvæmt íslensku þýðingunum á „Hrafninum“, og rím-mynstrið
er einfaldara og sparlegra en í „Hrafninum“. Svona hljóðar annað erindið í
bálki skáldkonunnar:14
There’s a lady – an earl’s daughter, – she is proud and she is noble,
And she treads the crimson carpet, and she breathes the perfumed air,
And a kingly blood sends glances up her princely eye to trouble,
And the shadow of a monarch’s crown is softened in her hair.
En víðar má finna svipað form og sömu hrynjandi og hjá Poe, einnig í
íslenskum kveðskap frá 18. og 19. öld og skiptir það máli þegar hugað er að
bókmenntasögulegu samhengi íslensku þýðinganna. Þar mætti fyrst nefna
þrjú kvæði eftir Eggert Ólafsson. Þau eru „Lysthúskvæði“, „Hafnarsæla“ og
„Íslandssæla“. Öll hafa kvæðin „viðkvæði“ sem er þrjár ljóðlínur. Þær eru
prentaðar og auðkenndar fremst í kvæðinu og tvær þeirra birtast einnig í
megintexta hvers erindis, í 5. og 8. línu. Viðkvæðið er svo venja að þylja í
heild á eftir hverju erindi og verða ljóðlínurnar þá ellefu í hverju erindi (tvær
þeirra tvíteknar). Viðlagið í „Lysthúskvæði“ er þetta:
Fagurt galaði fuglinn sá
forðum tíð í lundi:
listamaðurinn lengi þarvið undi.
13 Sbr. Dawn B. Sova, Edgar Allan Poe – A to Z. The Essential Reference to His Life and
Works, New York City: Checkmark Books, 2001, bls. 208.
14 Elizabeth Barrett Browning, „Lady Geraldine´s Courtship“, The Works of Elizabeth
Barrett Browning, Ware, Hertfordshire: The Wordsworth Poetry Library, 1994, bls.
219-227, hér bls. 219.