Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2011, Page 221
221
HREIÐUR, SKELJAR, KENNILEITI
sem hefur ekki erft skynjun upplýsingarinnar skiptist ljóðið ekki lengur í
tvo hluta, annan sem einkennist af vistfræðilegu andófi og hinn af félags-
legu. Hvernig myndi til dæmis ástralskur frumbyggi lesa ljóðið, sem hefur
gengið á ósýnilegum stígum sem liggja um landið þvert og endilangt, stígum
sem Evrópubúar þekkja sem draumaslóða eða söngvalínur en frumbyggj-
arnir sjálfir kalla fótspor forfeðranna eða veg laga og reglna? „Eigum við að
túlka sorgir lækjarins sem bergmál sorga Clares?“ spyr Barrell. Nei, myndi
frumbygginn svara, fullviss um að landið sjálft syngi í sífellu. Það má vel vera
að það sé á hinn veginn: Að sorgir Clares bergmáli sorgir lækjarins.
Paul Klee talaði sem listamaður, ekki gagnrýnandi: „Í skóginum varð ég
þess oft áskynja að það var ekki ég sem horfði á skóginn. Suma daga fann ég
að trén horfðu á mig, töluðu til mín ... ég var þar og hlustaði ... Ég held að
listamaðurinn verði að láta alheiminn smjúga inn í sig í stað þess að smjúga
inn í hann“ (vistfemínisti myndi staldra hér við yfir málnotkuninni smjúga inn
í). Maurice Merleau-Ponty er fyrirbærafræðilegur heimspekingur steyptur
í svipað mót og Bachelard og seint á ævinni skrifaði hann ritgerðina „Auga
og hugur“ [L’Œil et l’esprit] sem fjallar um vald skapandi listamanna til að
brjóta upp aðgreiningu vísindanna á frumlagi og andlagi, huga sem skoðar
og heim sem stærðfræðin hefur skilgreint. Í ritgerðinni vitnar hann í Klee
en hvað Merlau-Ponty varðar þá „tölum við um „innblástur“ og orðið ætti
að taka bókstaflega. Það er virkilega til innblástur og útöndun Verunnar“.
Ljóðskáldið andar að sér veru jarðarinnar. Það sem veitti Clare innblástur
var að staðirnir sem hann unni önduðu(st). Í sorg hans fólst vitneskjan um
að þegar öndunin stöðvast kemur dauðinn í kjölfarið.
Hefðbundið vanmat rómantíkera á Clare byggist líka á mati á því sem
John Keats kallar sjálfhverfa háleitni. Gagnrýnendur kvarta sífellt undan því
að Clare lýsi eingöngu náttúrunni, en Wordsworth velti hins vegar fyrir sér
á sjálfsmeðvitaðan hátt sambandinu á milli hugar og náttúru. Wordsworth
er talinn nútímalegur vegna þess að hann er, í skilningi Schillers, tilfinn-
ingasamur. Clare er talinn frumstæður vegna þess að hann sé eins konar
frumbyggi, vegna þess að hann sé, í skilningi Schillers, barnslegur.
En munurinn er ekki svo einfaldur. Á þeirri stundu sem Clare skrifar ljóð
sín hættir hann að vera barnslegur og skilur sjálfan sig frá landinu. Hann
les texta náttúrunnar – til dæmis eggin sem krotað hefur verið á í „Hreiðri
gultittlingsins“ – en sem rithöfundur dvelur hann í umhverfi ímyndunar-
aflsins. Textar hans eru þó ekki náskyldir vistfræði Helpston, þeir tilheyra
logos og ekki oikos. Þegar búið er að festa orð ljóðskáldsins á blað og dreifa
þeim út fyrir upprunastað sinn eru þau ávallt tilfinningasöm á Schilleriskan