Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Blaðsíða 23
22
talist dæmigerðir fyrir stærri þjóðfélagshópa.54 Sú gagnrýni er að mínu
mati á villigötum því hún gerir ráð fyrir að hinn dæmigerða meðalmann
megi yfirhöfuð finna, eða að hlutverk sagnfræðinnar sé að bera kennsl
á slíka meðaljóna. Þess í stað tel ég eitt helsta notagildi hinnar einsögu-
legu aðferðar felast í því að greina það sem bandaríski sagnfræðingurinn
Michael Seidman kallar „andfélagslega sögu“ (e. antisocial history), þar sem
átök milli hins sjálfráða einstaklings og ögunartilburða ýmissa samfélags-
afla eru sett í forgrunn.55 Í stað þess að leitast við að skýra menningu
heildrænt og í rökrænu innra samhengi er að mínu mati hagur í því að
sagnfræðingar reyni að leiða í ljós menningarmun og þær skapandi leiðir
sem einstaklingar hafa beitt til að losa sig úr „spennitreyju menningar
[sinnar] og samfélags“.56 Það hafa íslenskar einsögu- og kynjasögurann-
sóknir gert upp að vissu marki og með góðum árangri, en ennþá skortir
víðara sjónarhorn og fjölbreyttari umfjöllun þar sem atbeini undirsáta er
greindur á kerfisbundnari hátt og út frá þeirra eigin forsendum.
Að haga sér helst til ósvífilega
Hvernig gæti slík rannsókn litið út? Hvernig reyndu undirsátar á Íslandi
fyrri alda að losa sig úr spennitreyju samfélags síns? Hér verður tekið eitt
dæmi úr dómabókum Húnavatnssýslu frá því á nítjándu öld til að sýna
fram á hvernig það sjónarhorn sem hér hefur verið talað fyrir má nýta til
að greina og túlka valdaafstæður og andóf út frá takmörkuðum heimild-
um.57
Á manntalsþingi að Tindum í Svínavatnshreppi þann 19. júní 1851
efndi Jónas Pétursson daglaunamaður á Kagarhóli til nokkurra óláta. Hann
54 Guðmundur Hálfdanarson, „Rannsóknir í menningar- og hugmyndasögu 19. og 20.
aldar“, Íslensk sagnfræði á 20. öld, ritstj. Guðmundur J. Guðmundsson, Guðmundur
Jónsson og Sigurður Ragnarsson, Reykjavík: Sögufélag, 2009, bls. 187–205, hér
bls. 198–199; Loftur Guttormsson, „Sigurður Gylfi Magnússon: Menntun, ást og
sorg: Einsögurannsókn á íslensku sveitasamfélagi 19. og 20. aldar“ (ritdómur), Saga
1/1998, bls. 311–319.
55 Michael Seidman, „Social history and antisocial history“, Common Knowledge
1/2007, bls. 40–49. Sjá einnig Thaddeus Russell, A Renegade History of the United
States, London: Simon & Schuster, 2010.
56 Michael Seidman, „Social history and antisocial history“, bls. 49.
57 Um heimildagildi dómabóka fyrir ritun hversdagssögu og grasrótarsögu, sjá Má
Jónsson, „inngangur“, Til merkis mitt nafn: Dómabækur Markúsar Bergssonar sýslu-
manns Ísafjarðarsýslu 1711–1729, Már Jónsson tók saman, Reykjavík: Háskóla-
útgáfan, 2002, bls. 15–37, hér bls. 15.
Vilhelm Vilhelmsson