Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Blaðsíða 106
105
sögumanni; vísast skiptir t.d. miklu hvernig þeir nema hljómfallið í máli
hans, segjum í upptalningunni „hryssingslega, kaldranalega og dræmt“ eða
í líkingunni „eins og haglkorn á húsþaki í byrjun óveðurs“. En þar skortir
enn nákvæmar rannsóknir sem snúa að skáldsagnalestri. Það breytir svo
ekki hinu að lesendur vita ekki hvort sögumaður er að draga þá á asnaeyr-
unum auk þess sem framkoma ungfrúarinnar kann að verða einhverjum
söm „ráðgáta“ og sögumanni, og kalla á hugarlestur.
En eftirtektarverðasta einkenni sögunnar, sem minnir ótvírætt á leyni-
lögreglusögur, er kannski hvernig reynt er að efla trú lesenda á tiltek-
in atriði, en hún brotin óðara niður og byggð að hluta upp aftur svo að
henni tengist meiri efi en fyrr. Sögumaður og ungfrú Harrington kynnast
á miðilsfundi þar sem miðillinn segir ekki aðeins frá fyrri ástum ungfrú
Harrington á manni sem svíkur hana, heldur upplýsir líka að ungfrúin hati
sögumann af því að hún telji hann ranglega vera manninn sem varð valdur
að dauða bróður hennar. Það er sem sé gripið til yfirnáttúrlegra afla til að
skýra fyrir lesendum hvers vegna ungfrúnni er í nöp við sögumann og −
tengja atburðarásina hugsanlegum glæp. Eða frá sjónarhorni Zunshine:
„heimildamyndin“ á sér rætur í yfirnáttúrulegum hæfileikum.
Þegar sagan kom út voru flestir vísindamenn hættir að rannsaka skyggni
og andatrú í leit að „millivegi milli vísinda og trúar“.61 Sögumaður Jóhanns
Magnúsar segir hins vegar að blaðamenn hafi lagt „fremur lítinn trúnað á“
(4) yfirnáttúrulega hæfileika miðla en „ýmsir frægir vísindamenn“ hafi
komist að því að mörg dularfull fyrirbrigði miðilsfunda komi fram „án
nokkurra pretta“ (4). Hann undirbyggir með öðrum orðum frásögnina
með því að leggja áherslu á skiptar skoðanir um skyggni en gerir þá vís-
indamennina − sem almennt eru taldir byggja á tilraunum og sönnunum
− fremur að talsmönnum hennar en blaðamennina, þar með talinn sjálfan
sig. Þannig ýtir hann að sínu leyti undir að lesendur leggi trúnað á mið-
ilinn. En á móti því vinnur óðara að blaðamaðurinn ungfrú Harrington
afgreiðir orð miðilsins með því að vísa til tengsla dáleiðslu og fjarskyggni
(e. telepathy); hann hafi sagt það sem þau sögumaður hugsuðu og vildu að
hann segði. Ónefnt er þá hvernig hvort tveggja kann að hafa áhrif á hug-
myndir um trúverðugleika sögumanns. Meðal þess sem gæti dregið úr
tortryggni andspænis honum er að eftir miðilsfundinn kveðst hann ekki
hugsa um annað en ungfrú Harrington og undarlega framkomu hennar.
61 Michael Saler, „‘Clap if you Believe in Sherlock Holmes’, Mass Culture and the
Re-enchantment of Modernity, c. 1890 – c. 1940“, The Historical Journal, 3/2003,
bls. 599–622, hér 602. – Á ensku segir: „via media between science and religion“.
AÐ SEGJA FRÁ [...] ÆVINTÝRUM