Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Blaðsíða 111
110
eftirlætisskáld allra. Sögurnar voru þrungnar af svo spennandi við-
burðum, að þær minntu allra helzt á ævintýri úr Þúsund og einni
nótt, enda urðu þær samstundis eftirlætisbækur barna og unglinga,
fyrst og fremst vegna hins látlausa en heillandi ævintýraljóma, sem
yfir þeim var. En bækurnar voru líka lesnar af fullorðna fólkinu, og
það beið með óþreyju eftir hverri nýrri bók frá hendi þessa höfund-
ar, og þær njóta vinsælda enn þann dag í dag.70
En Halldór Laxness, sem ræðir sérstaklega um „Ungfrú Harrington og
ég“, setur heildaráhrifamátt frásagnarinnar á oddinn:
Eftir að ég fullorðnaðist þorði ég ekki leingi vel að lesa aftur þessa
sögu af ótta við að verða vonsvikinn. ég náði mér í bókina aftur
núna á dögunum. En ekki var ég búinn að lesa leingi áður en ég varð
hyltur og bjargtekinn einsog þegar ég var níu ára.71
Í ljósi ummæla af þessu tagi ætla ég að gefa mér að ýmsum lesendum sög-
unnar „Ungfrú Harrington og ég“ hafi yfirsést dálítil athugasemd í öðrum
frásagnarhlutanum þar sem segir að persónan sem sé í gervi alþýðukon-
unnar sé „lík vexti“ (24) og hin sem þykist hertogafrúin af Normandí.
Einhverjir þeirra hafi hins vegar vísast tekið eftir að í þriðja hlutanum segist
sögumaður bíða alþýðukonunnar „eins og Franz vinarins á Veserbrúnni“
(43) − þ.e. persóna í sögunni Þöglar ástir sem áður fyrr naut vinsælda72 − og
beðið spenntir eftir að vita hvert framhald yrði á. Þá hlýtur það að hafa
komið þeim á óvart að sögumaður telur sig dag einn koma auga á konuna
með bláa borðann í lystigarðinum en þegar hann yrðir á hana, vill hún ekk-
ert við hann kannast, og er þá aukinheldur ekki með neinn bláan borða.
Glettnislegar athugasemdir af ýmsu tagi vísa þó veg: nú er konan t.d. með
kryppu, sem bendir til dulargervis, og í barmi hennar sér sögumaður far
eftir títuprjón!
Þar eð enginn annar en valbrármaðurinn skerst í leikinn eftir nokkurt
70 Árni Bjarnarson, „Göfug lífsskoðun höfundarins skín gegnum allt, æviágrip
Jóhanns Magnúsar Bjarnasonar, skálds“, Sunnudagsblað Tímans, 18. nóvember 1972,
bls. 896.
71 Halldór Laxness, Í túninu heima, Reykjavík: Helgafell, 1975, bls. 170.
72 Sagan kom fyrst út í Kaupmannahöfn árið 1861 en var seinna gefin út bæði í
Winnipeg og í Reykjavík, sjá Johann Karl August Musäus, Þöglar ástir, þýð. Páll
Sveinsson, Kaupmannahöfn, 1861; sama verk, þýð. Steingrímur Thorsteinsson,
Winnipeg, 1907; sama verk, Reykjavík: Ísafold, 1939.
BeRgljót soffía KRistjánsDóttiR