Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Blaðsíða 146
145
nokkrir sagnfræðingar stofnun og rekstur „þrælasjóðanna“ á 17. og 18. öld
í Norður-Evrópu og fundu þræði og spírur sem síðar urðu að blómguðum
velferðarríkjum.72
Í samskiptum manna og þjóða er stundum tekinn sá kostur að gleyma því
sem veldur angri og óþægindum. Hin leiðin er sú að draga það fram í dags-
ljósið, kryfja málin og ná sáttum, jafnvel að biðjast opinberlega afsökunar.
Þetta hefur gerst á alþjóðavettvangi síðustu ár og áratugi. Bandaríkjaforsetar
hafa beðist afsökunar á þrælaversluninni eins og áður er nefnt, forsætisráð-
herra Ástralíu harmaði þá ráðstöfun stjórnvalda að taka hóp frumbyggja-
barna frá foreldrum sínum og ala þau upp annars staðar án sambands við
uppruna sinn, Willy Brandt Þýskalandskanslari kraup frammi fyrir minnis-
merki um gyðingahverfið í Varsjá – og svo mætti lengi telja.73
Er hugsanlegt að sá dagur komi að alsírsk (og marokkósk) stjórnvöld
biðjist afsökunar á Tyrkjaráninu? Á þessari stundu virðist það fjarlægur
möguleiki en við skulum gæta að nokkrum þáttum í slíku ferli.
Afsökunaryfirlýsing þarf ekki að fela í sér að Alsírstjórn lýsi því þar •
með yfir að stefna og tilverugrundvöllur alsírska ríkisins á tyrkja-
tímanum séu dregin í efa. Þvert á móti getur yfirlýsingin verið
staðfesting á því að rétt hafi verið farið að í meginatriðum og að
Tyrkjaránið á Íslandi hafi verið rof á þeirri meginreglu sem fylgt
var. opinberar afsakanir gegna iðulega þessu hlutverki, þ.e. að stað-
festa meginregluna með því að biðjast afsökunar á broti á henni.
Sagnfræðingar, siðfræðingar og aðrir nákvæmnismenn gætu mald-•
að í móinn og sagt að sektarhugtakið væri flókið í þessu tilviki,
bæði vegna þess að langt væri um liðið, frumkvæði og framkvæmd
leiðangursins til Íslands hefði verið undir forystu evrópskra trú-
skiptinga, að tími trúarstríða hafi enn ekki verið liðinn, að núver-
andi stjórnvöld í Alsír séu ekki beinir arftakar hinna margslungnu
stjórnvalda sem áður fóru með völd þar í landi, þ. á m. korsara-
foringjar og fulltrúar Tyrkjasoldáns. Þessar mótbárur og fleiri til
kunna að vera gildar en að lokum er það vilji stjórnvalda í Alsír
sem ræður úrslitum. Ef þau sjá sér hag í því að biðjast afsökunar og
röksemdir fyrir því eru ekki langsóttar, geta þau gert það.
72 Sjá tímaritið Historical Social Research 4/2010, Special Issue: The Production of Human
Security in Premodern and Contemporary History.
73 Lisa Storm Villadsen, „Beyond the Spectacle of Apologia: Reading oficcial Apalo-
gies as Proto-deliberative Rhetoric and instantiations of Rhetorical Citizenship“,
Quarterly Journal of Speech 2/2012, bls. 230–247.
tYRKjaRániÐ sem minning