Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Blaðsíða 58
57
orðræðu réttar sé fólki talin trú um að það móti fullkomlega sína eigin lífs-
hætti.35 Réttarríkið starfar eins og það gerir vegna þess að það er grund-
vallað á „valdabáknum sem hafa áhrif á líkamann, kynferðið, fjölskylduna,
frændsemina, þekkingu, tækni o.s.frv.“36
Áhersla Foucaults á hina mótandi hlið valdsins er á margan hátt ákveð-
in gagnrýni á kunnar skilgreiningar á valdi, eins og þær sem sprottið hafa
upp af hinni marxísku hefð þar sem áherslan er á vald ríkisins eða vald
ákveðinnar stéttar. En þótt hann telji þessa hefðbundnu marxísku grein-
ingu takmarkaða, er mikilvægt að gera sér grein fyrir að greining hans á
lífvaldinu er í beinum tengslum við hinn efnahagslega grundvöll marxism-
ans.37 Til dæmis bendir hann á tenginguna á milli hins þjálfaða, agaða lík-
ama og „hins efnahagslega skylduboðs framleiðslugetu“ í greiningu sinni
á fangelsiskerfinu.38 Það eru tengsl á milli þess að formgerð valds varð
mótandi og þess að þörf var á vinnuafli sem gat unnið á skilvirkan hátt.
Það var þörf á framleiðslu sjálfsveruháttar sem hentaði þeirri efnahagslegu
framleiðslu kapítalismans sem gekk út á arðsemi.
Mótun sjálfsverunnar
Eitt aðalstefið í heimspeki Foucaults er einmitt sjálfsveruhugtakið sem
rætt hefur verið hér að ofan. Í „Sjálfsveru og valdi“ heldur hann því fram
að sjálfsveran hafi ávallt verið lykilhugtak greiningar hans en ekki vald, þó
svo að það hafi verið honum svo hugleikið. Valdagreining hans felst í að
lýsa ólíkum háttum þess hvernig sjálfsverur myndast og hvernig strúkt-
úreruð valdatengsl samfélagsins koma þar við sögu. Eftirfarandi er lykil-
málsgrein úr „Sjálfsveru og valdi“:
Þessi formgerð valds er að verki í okkar nánasta hversdagslífi og
flokkar einstaklinginn, auðkennir hann með hans eigin einstaklings-
eðli og festir hann við sína eigin sjálfsmynd. Hún þröngvar sann-
leikslögmáli sínu upp á hann sem hann verður að játast og gera
35 Jon Simons, Foucault & the Political, London: Routledge, 1995, bls. 53.
36 „Truth and Power“, The Foucault Reader, ritstj. Paul Rabinow, London: Penguin
Books, 1991, bls. 64.
37 Sjá má greinileg áhrif kennara Foucaults, Louis Althusser, í valdagreiningu Fou-
caults en Althusser er jafnan kenndur við strúktúralískan marxisma eða „endurhvarf
til Marx“.
38 Catherine Mills, „Contesting the Political: Butler and Foucault on Power and
Resistance“, The Journal of Political Philosophy 3/2003, bls. 223–272, hér bls. 256.
GETUR LEiKURiNN VERið JAFN?