Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Blaðsíða 56
55
vald.26 Vald er ekki eitthvað sem gerist á öðru stigi en önnur tengsl, það er
hvorki æðra né óæðra. Frekar væri hægt að segja að upplýsingatengsl verði
valdatengsl ef maður ætlar sér að verka á gjörðir annarra og gerir það.
Annað atriði sem greinir valdatengsl frá öðrum tengslum er að þau
gera nauðsynlega ráð fyrir möguleika á andófi. Ef andóf er ekki til staðar er
hreinlega ekki um vald að ræða heldur einungis hlýðni. Ef einhver reynir
að hafa áhrif á gjörðir þínar og þú maldar í móinn þá sýnir þú andóf. „Því
held ég að andóf sé aðalorðið, lykilorðið í þessari dýnamík.“27 Manneskjan
sem reynir að fá þig til að gera eitthvað gerir ráð fyrir því að þú hafir frelsi
til að segja nei, jafnvel þótt það frelsi sé jafnvel aðeins til málamynda.
Umfjöllun Foucaults um andóf er ekki nærri jafn umfangsmikil og sú
sem tekur til valds, en engu að síður er andóf frumforsenda valdatengsla.
Hann heldur því nefnilega fram að til þess að koma í veg fyrir að valda-
tengsl staðni; raunar til að koma í veg fyrir að yfirráð (e. domination) eigi sér
stað, verði fólk að hafa í frammi andóf og það geri það alltaf á endanum,
hvort sem það er eftir ár, áratugi eða aldir. og ef maður nær að breyta
þeim valdatengslum sem eru til staðar í samfélagi, þá er alltaf af meiru að
taka.
Valdaformgerð í dulbúningi
Í Þekkingarviljanum leggur Foucault til að skilningur okkar á valdi sé
kannski nokkuð á skjön við raunverulega virkni valds. Við gerum okkur
hreinlega ekki grein fyrir hversu mótandi valdið sé. Raunar telur hann að
aldrei hafi jafn mikill sköpunarkraftur verið lagður í að hafa áhrif á gjörðir
almennings og í vestrænum nútímasamfélögum.28 Engu að síður sér fólk
vald að miklu leyti fyrir sér sem valdboð, í formi hvíthærðs og skeggjaðs
karls á fjalli sem segir: „Þú skalt ekki ….“ Samkvæmt Foucault er ástæðan
þessi:
Leyfið mér að leggja fram almenna, taktíska ástæðu sem virðist þó
sjálfsögð: Vald er aðeins þolanlegt að því gefnu að það dyljist að
verulegu leyti.29
26 önnur dæmi sem Foucault nefnir um þess háttar samskipti eru efnahagstengsl og
kynferðistengsl. The Will to Knowledge, bls. 94.
27 Michel Foucault, „Sex, Power and the Politics of identity“, Ethics: Subjectivity and
Truth, ritstj. Paul Rabinow, London: Penguin Books, 1997 [1984], bls. 167.
28 Michel Foucault, The Will to Knowledge, bls. 86.
29 Michel Foucault, Histoire de la sexualité 1, La volonté se savoir, France: Gaillimard,
1976, bls. 113.
GETUR LEiKURiNN VERið JAFN?