Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Blaðsíða 155
154
tveimur gerðum tilfella andspænis hvorri annarri. Í annarri gerðinni er
kúgun óréttmæt athöfn framkvæmd af geranda: ef kúgun af þessari gerð
á sér stað þegar persóna eða persónur (kúgarinn eða kúgararnir) valda
öðrum skaða (hinum kúgaða) með óréttmætum hætti. Við skulum kalla
þessa gerð tilfella, eins og vænta má, gerandakúgun. Það er ekki ljóst að öll
tilfelli þar sem gerandi veldur óréttmætum skaða eigi að teljast dæmi um
kúgun; alvarleiki athafnarinnar og misbeiting valdsins eru þættir sem geta
greint kúgun frá annars konar rangmætum skaða.
Í hinum tilfellunum felst kúgunin ekki í ranglátri athöfn af hálfu ein-
staklings heldur í félagslegu/pólitísku ranglæti; hún er vandamál sem felst
í sameiginlegu fyrirkomulagi, ranglæti í venjum okkar eða stofnunum.
Lítum á harðstjórn. Harðstjórn er ekki óréttmæt vegna þess (eða ekki
aðeins vegna þess) að harðstjórar séu siðlausar manneskjur sem vísvitandi
valda öðrum skaða, heldur vegna þess að sú stjórnskipan sem felur í sér
harðstjórn er ranglát. Kenningasmiði greinir á um það í hverju ranglæti
hennar felst nákvæmlega en meðal lykilatriða má telja þá staðreynd að
harðstjórn er ekki fyrirkomulag þar sem einstaklingar teljast siðferðileg-
ir jafningjar. (Samkvæmt meira eða minna frjálslyndri greinargerð mætti
halda því fram að slíkt fyrirkomulag sé ekki hægt að réttlæta með neinum
hætti sem samfélag skynsamra jafningja gæti samþykkt og að dreifing valds
og gæða undir harðstjórn hvíli á andstyggilegum og siðferðilega vafasöm-
um mannamun.) illgirni harðstjórans kann að auka á það sem er kúgandi
við harðstjórn, en jafnvel þegar harðstjórinn er velviljaður þá er stjórn-
skipanin kúgandi. Við skulum kalla þessa seinni gerð tilfella kerfislæga
kúgun.7
Þegar um er að ræða gerandakúgun er sjónum beint að einstaklingum
eða hópum og athöfnum þeirra; það er hlutverk okkar bestu siðfræðikenn-
inga að segja til um það hvenær viðkomandi athöfn er röng. Þegar um er
að ræða kerfislæga kúgun er sjónum beint að sameiginlegu fyrirkomulagi
okkar – stofnunum okkar, stefnu og venjum – og réttlætiskenning ætti að
sjá okkur fyrir mati á ranglætinu. Vitaskuld má finna samhengi þar sem
7 Þessi gerð kúgunar, sem stundum er túlkuð með þrengri hætti, hefur líka verið
kölluð „stofnanakúgun“ („stofnanalægur rasismi“). Sjá, til dæmis, Kwame Ture
(öðru nafni Stokely Carmichael) og Charles V. Hamilton, Black Power: the Politics of
Liberation in America, New york: Random House, 1967; Gertrude Ezorsky, Racism
and Justice the Case for Affirmative Action; Lawrence A. Blum, I’m not a Racist, But …
the Moral Quandary of Race, ithaca: Cornell University Press, 2002, bls. 22–26.
SALLy HASLANGER