Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.2000, Side 100
Múlaþing
Nordal áttaði sig ekki á þessu atriði.
„Orðskviðir eru hlutfallslega margir í sög-
unni, og er þess stundum getið að þeir séu
teknir af alþýðu vörum: það er forn
orðskviður, minnist nú margur á fornan
orðskvið, satt er flest það; sem fornkveðið
er.“ En hér hefur hinum mæta fræðimanni
skjátlast; honum tókst ekki að finna réttlega
undirstöðu til orðanna forn og fornkveð-
inn; þau varða engan veginn alþýðu varir
heldur mikinn aldur; sum spakmælin voru
orðin allt að því þúsund ára gömul þegar
atburðir Hrafnkels sögu eru taldir hafa
gerst. Víðar í ritum okkar frá þrettándu öld
er orðið forn notað um Rómverja, Gyðinga
og Grikki í löngu liðinni fortíð.
Lærður stíll
Sigurður Nordal gerir skarpan mun á
tvenns konar stíl sem fornsögur spruttu af:
„Annars vegar var hinn frumstæði frá-
sagnarháttur munnmælanna [...]. Hins
vegar var svo hinn erlendi klerkastíll,
breiður, flókinn og umsvifamikill. Islend-
ingum lánaðist, - bæði fyrir þekkingu sína
á latnesku bókmáli og þýðingar úr því á
íslenzku allt frá því um 1100, - að skapa sér
sögustíl og sameina í honum mikið af
einfaldleik hins daglega máls og fyllingu
hins bóklega.“ (52-53). Sigurður telur að
ýmsar málsgreinar í Hrafnkels sögu beri
keim af klerklegum stíl, og vissulega er það
rétt athugað að eftirfarandi glefsur standast
illa samanburð við glæsilegt orðalag í
hinum bestu Islendinga sögum: „mér þykir
þetta verk í verra lagi víga þeirra, er eg hefi
unnið [...] mér þykir þetta verk mitt verra
en önnur þau, er eg hefi unnið.“ „Munuð
þið hafa annaðhvort fyrir ykkar þrá,
nökkura huggan eða læging enn meiri en
áður og hrelling og skapraun.“ „Hann var
linur og blíður við sína menn, en stríður og
stirðlyndur við Jökulsdalsmenn." Hér
bregður fyrir breiðum og flóknum stíl, enda
eiga slíkar málsgreinar sér ærnar hliðstæður
í klerklegum ritum.
Þótt ummæli Sigurðar og annarra fræði-
manna um hinn lærða stíl séu býsna at-
hyglisverð, þá eru þau að því leyti einhliða
og villandi að þau gefa rangar hugmyndir
um ritþjálfun að fornu. Þeim íslendingum
fyrr á öldum sem auðnaðist að komast á
skólabekk munu hafa verið innrættar ýmsar
reglur um meðferð móðurmálsins sem
stinga mjög í stúf við staðhæfingar um
lærða stílinn. Margt af því sem snúið var á
íslensku á tólftu og þrettándu öld er býsna
vel úr garði gert og harla ólíkt þeim útlenda
klerkastíl sem Nordal nefnir. í slrku sam-
bandi skal minna á setningar Prospers
Aquitinusar,19 ýmsar hómílíur, þýðingar úr
heilagri ritningu og veraldleg rit á borð við
Hugsvinnsmál, Rómverja sögur, Leiðar-
vísan lærisveins og Alexanders sögu. Þótt
guðfræði fyrri alda sé nú fáum að skapi, þá
er það blindur maður sem áttar sig ekki á
þeirri fegurð og þeim einfaldleika, þeirri
mýkt og þeim þrótti sem auðkennir fjöl-
margar setningar í kristinfræðum Islendinga
á tólftu og þrettándu öld. „Hvað merkir á
nema fljótanda rás mannkyns þess es svo
rennur frá uppruna sínum til dauða svo sem
á til sævar?“ „Er enn og ógóðgjarnlegt að
vilja heyra illa kvittu, en óspaklegt að trúa,
allra helst ef þeygi er skylt að vita, þótt satt
væri.“ „Hinn góði maður, þótt hann þjóni
öðrum, þá er hann þó frjáls, en hinn illi þótt
hann hafi konungs ríki þá er hann þó þræll
fastur á fótum, eigi sem eins manns heldur
jafn margra drottna sem hann á löstu marga.“
19Sá tólftu aldar íslendingur sem sneri kjamyrðum Prospers (d. 455) á móðurmál sitt bar gott skyn á iatneska tungu og kunni íslensku
út í ystu æsar: „Sá einn maður er við alla ómeinn er hvorki gerir mein sér né öðrum.“ „Svo skal mönnunum unna að þeygi séu
misgerðir þeirra elskaðar.“ Leifar fornra frœða íslenzkra. Útg. Þorvaldur Bjamarson (Kaupmannahöfn 1878), bls. 2-18.
98
A