Jökull - 01.12.1984, Qupperneq 51
af Vatnshamri, 100-200 m háum og kollóttum.
Að norðan hylur ís öll fjöll og þar hallar jöklinum
alla leið upp að Bárðarbungu. Undir ísnum syðst
í lægðinni leynast Grímsvötn, hulin 200 m þykkri
íshellu. Austur úr þeim falla jökulhlaup á nokk-
urra ára fresti niður á Skeiðarársand. Allt eru
þetta merki um jarðhita undir jökli. Af öðrum
ummerkjum niðri í Grímsvatnalægðinni má
nefna, vatnsborð við rætur Grímsfjalls og Vatns-
hamars og stöku sinnum hafa sést þar volgar
laugar þegar lágt er í Vötnunum. Uppi á Gríms-
fjalli sjást íshellar og gufuaugu við báða Svía-
hnúkana, tvö jökulsker sem rísa upp úr ís.
Gufa sem stígur upp frá Grímsfjalli ber lítil
merki jarðhitavökvans undir botni Grímsvatna.
Þessi gufa er eimur sem hefur stigið upp af vatns-
borði 300 m neðar í fjallinu. Á leið þaðan hefur
gufan þést hvað eftir annað og gufað upp á ný og
þau efni fallið út sem minna á jarðhita, t.d. finnst
örsjaldan brennisteinslykt við Grímsvötn og efna-
greiningar frá gufuaugum á Grímsfjalli sýna að
flest önnur efni tengd jarðhita eru horfin. Um
hlaupvatnið úr Grímsvötnum gildir hins vegar allt
annað. Af því leggur hinn versta fnyk og uppruni
þess leynir sér ekki. Því hefur vatn verið efna-
greint í hlaupunum 1954, 1965, 1972, 1976, 1982
og 1983. Auk þess hefur verið könnuð efnasam-
setning í jökulánum utan hlaupa til þess að fá
fram hvernig efnasamsetning árvatnsins raun-
verulega breytist við hlaupin.
Vatn í Skeiðarárhlaupum er blanda af hreinu
bræðsluvatni frá jöklinum og jarðhitavatni sem
safnast hefur fyrir í Grímsvötnum. Þar verða hins
vegar efnabreytingar við geymsluna milli hlaupa
og því er ekki vandalaust að fá fram upplýsingar
um jarðhitavökvann út frá hlaupvatninu. Súrt
vatn skolar út alkalímálma (Na og K) og alkalí-
jarðmálma (Mg og Ca) úr hvarfgjörnu basaltgleri
á botni Grímsvatna. Þess vegna breytist samsetn-
ing auðleystra efna svo sem kalíum, kalsíum,
magnesíum og natríum. Hvað varðar þessi efni er
því samsetning í hlaupvatni engin vísbending um
gerð jarðhitavökvans. Af þeim sökum er útilokað
að nota efnahitamæla byggða á hlutfallinu Na/K í
hlaupvatni til þess að reikna hitastig í jarðhita-
kerfinu í Grímsvötnum (eins og Sigurður Stein-
þórsson og Niels Óskarsson (1983) reyndu). Því
má bæta við að þessar efnabreytingar hafa orðið
við hitastig sem hlýtur að vera lægra en 30-40 °C.
Styrkur efna eins og magnesíums minnkar með
hita og er nær enginn í jarðhitavatni. Svo mikið af
magnesíum mælist í jökulhlaupvatni, að efna-
breytingarnar í Vötnunum hafa orðið við hitastig
undir fyrrgreindum mörkum og hiti getur heldur
ekki til lengdar hafa farið yfir þau, því að þá hefði
efnið fallið úr vatninu.
Breytingar verða þó ekki á öllum efnum við
geymsluna í Vötnunum. Kísill er svo torleystur
að hann breytist lítið í köldu vatni og því geymir
styrkur hans upplýsingar um jarðhitavökvann
sem borist hefur inn í Grímsvötn. Þennan kísil-
styrk má meta þar sem náin tengsl eru milli
magns af kísli og hitastigs í jarðhitakerfum.
(Grímsvötn eru háhitasvæði og hliðsjón er höfð
af þekktum jarðhitasvæðum). Jarðhitavatnið hef-
ur síðan blandast kísilsnauðu bræðsluvatni og í
hlaupunum berst því þynnt jarðhitavatn niður á
Skeiðarársand. Kísilstyrkur þess er mældur og því
má reikna með hve miklu kísilsnauðu bræðslu-
vatni jarðhitavatnið var þynnt. Einnig er unnt að
finna hve mikið jarðhitavatn hefur borist í Vötn-
in; það er vatnið sem á vantar til þess að fá
heildarvatnsmagnið í Vötnunum. En þá er enn-
fremur unnt að finna hvernig jarðhitavökvinn
skiptist milli vatns og gufu. Jarðhitagufan er þre-
falt orkuríkari á massaeiningu en vatnið og
ákveðnum heildarmassa verður aðeins skipt á
einn veg milli vatns og gufu ef samanlögð varma-
orkan frá þeim á að bræða ákveðinn massa af ís.
Niðurstöður benda til þess að um 15% af
heildarmassa vatns í Grímsvötnum sé kominn frá
jarðhitavökva. Hér er um að ræða nýjar upplýs-
ingar sem ásamt fyrri gögnum um massa og orku-
búskap Grímsvatna gera mögulegt að fá fram nýtt
mat á heildarorku jarðhitakerfisins og skilja að
þátt vatns og gufu bæði hvað varðar massa og
orku sem berst inn í Grímsvötn. Gufa er á bilinu
20-35% af massa alls jarðhitavökvans. Heildar-
varmaafl jarðhitans samsvarar 4700-4900 MW og
þar af ber gufa upp 2100-3000 MW en vatn
1900-2600 MW.
Grímsvötn eru eitt fárra jarðhitasvæða þar sem
eldvirkni gætir og merki sjást um bein tengsl
kviku við jarðhitavökva. Þannig sást hátt magn af
súlfati og járni af efnagreiningum á hlaupvatni í
desember 1983. Það bendir til þess að kvika hafi
borist inn í jarðhitakerfið. Efnamælingar benda
til þess að svo hafi etv. einnig verið 1954 og 1965.
Síðastliðin þrjú ár hafa hlaup frá Grímsvötnum
verið með öðrum hætti en þrjá áratugina á und-
an. Frá því um 1950 fram að 1976 hljóp reglulega
á 4 til 6 ára fresti þegar vatnsborð í Vötnunum
hafði risið svo hátt að þrýstingur á botni þeirra
nægði til þess að vatn gæti þrengt sér út við
JÖKULL 34. ÁR 49