Jökull - 01.12.1985, Side 95
ið eru geislakolsgreiningar á fornskeljum. Þær gefa vís-
bendingu um aldur jökulgarðanna. Hér verða teknar
saman aldursgreiningar fornskelja af Suðurlandi og úr
Borgarfirði.
Skeljar frá þremur stöðum af Suðurlandi hafa verið
aldursgreindar. Hæstan aldur gefa skeljar úr leirbakka
austan Brúarár, skammt ofan Spóastaða. Aldurinn
mældist 9930±190 ár (Þorleifur Einarsson 1964). Skelj-
arnar eru í um 55 m hæð yfir núverandi sjávarmáli og í
bæli jökulsins, sem ýtt hefir upp Y-garðinum.
Næst hæstan aldur gefa skeljar úr Hellisholtalæk í
Hrunamannahreppi. Þær voru teknar úr leirbakka í um
75 m hæð yfir sjó og voru gerðar tvær aldursgreiningar á
sama sýninu: 9580±140 og 9800±150 ár, sem gefa
meðalaldur um 9690 ár (Þorleifur Einarsson 1964). í
skýrslu um aldursgreiningarnar (Olsson og Piyanuj
1965) er þess getið, að hærri aldurinn sé úr innri hluta
skeljar en lægri aldurinn úr ytra byrði hennar. Aldurs-
greiningar úr miðri skel þykja áreiðanlegri og hærri
aldurinn því nær lagi enda svipaður og aldur skeljanna
við Brúará. Þessar skeljar eru á milli Y- og M-garðanna
og því a.m.k. yngri en Y-garðurinn.
Yngstar eru skeljar úr eystri bakka Hvítár vestur af
Kópsvatni gegnt Bræðratungu. Þær gefa aldurinn
7970±180 ár (Nydal o.fl. 1964). Aldurinn er ótrúlega
lágur og kemur vart til greina, að hann sé réttur, því að
land var með vissu risið úr sæ fyrir um 9000 árum þegar
Þjórsárhraunið rann í sjó fram milli Ölfusár og Þjórsár
(Elsa Vilmundardóttir 1977).
Aldursgreiningar fornskelja úr Borgarfirði gefa allt
aðra niðurstöðu. Ólafur Ingólfsson (1984) hefir tekið
saman rannsóknarsögu síðjökultímans í syðri hluta
Borgarfjarðar. Þar kemur fram m.a., að allar aldurs-
greiningar á skeljum liggja á bilinu 12100—12800 ár.
Þetta er mun hærri aldur en á sunnlensku skeljunum.
Allar skeljarnar, sem aldursgreindar hafa verið, eru í
5—30 m hæð yfir sjó utan skelja úr Stóra-Sandhóli í
mynni Skorradals.
Ashwell (1967, 1975) telur Stóra-Sandhól vera merki
um mjög háa sjávarstöðu, a.m.k. 135 m yfir núverandi
sjávarmáli og setið með skeljunum myndað við þær
aðstæður. Þorleifur Einarsson (1968) telur aftur á móti,
að jökull hafi ýtt efninu í Stóra-Sandhól með skeljunum
upp úr botni Skorradals. Halldór Torfason (1974) at-
hugaði Stóra-Sandhól og komst að svipaðri niðurstöðu
og Þorleifur.
ALDURJÖKULGARÐANNA OG
HRAUNANNA
Skeljarnar við Brúará og í Hellisholtalæk eru að baki
Y-garðsins og því er hann eldri en 10.000 ára. Þær eru
aftur á móti fyrir utan M-garðana. Sjór hefir því verið
kominn inn fyrir Y-garðinn fyrir um 10.000 árum, eða
um það leyti, sem Búðajökull Þorleifs Einarssonar
(1968) á að hafa náð hvað mestri útbreiðslu. Upp úr því
á hann að hafa hörfað hratt frá garðinum. Af því má
draga þá ályktun, að Y-garðurinn sé ekki frá Búðastigi
eins og Guömundur Kjartansson (1958b, 1970) og Þor-
leifur Einarsson (1968) töldu.
Af gögnum Guðmundar Kjartanssonar (1943, 1958b,
1970) má einnig sjá, að sjór hafi um svipað leyti verið
kominn upp að og sumstaðar a.m.k. inn fyrir M-garð-
ana. Þeir gætu hugsanlega hafa myndast við framrás
jökla á Búðastigi.
Nýleg aldursgreining á gróðurleifum frá Torfajökuls-
svæðinu flækir málið enn. Ingibjörg Kaldal og Elsa G.
Vilmundardóttir (1983) hafa kannað þykkar lónfyllur
þar. Neðarlega í einni lónfyllunni eru gróðurleifar, sem
þær hafa látið aldursgreina. Þær reyndust vera 10.000 +
480 eða -440 ára. Þetta eru elstu jurtaleifar frá nútíma,
sem fundist hafa á íslandi. Við þetta er að bæta, að í
lónfyllunni, neðan jurtaleifanna eru setlög sem sest hafa
til í sama lóni en þykkt þeirra er óþekkt. Svæðið hefir
því líklega verið orðið jökulvana nokkru fyrr en gróður-
leifarnar mynduðust.
Þessi niðurstaða stangast á við aldursgreiningar á
fornskeljum á Suðurlandi ef þær eiga að vera jafnaldra
M-görðunum. Tvær leiðir eru út úr þessum ógöngum.
Annars vegar, að aldursgreiningar á skeljunum séu
rangar, sem er vafasamt, eða að skeljarnar séu allar
yngri en M-garðurinn. Hins vegar, að aldursgreiningin
frá Torfajökulssvæðinu sé röng.
Y-garðurinn á Suðurlandi mun að líkindum vera sá
sami og nefndur er Álftanesgarður á Suðvesturlandi.
Kristján Sœmundsson (1965) telur, að jökulgarðarnir
við Þingvallavatn séu myndaðir á Álftanesstigi, en ekki
Búðastigi. Hann dró þá ályktun af legu Búðaraðarinnar,
eins og Þorleifur Einarsson (1964) og Guðmundur Kjart-
ansson (1964) töldu hana vera.
Jökullinn, sem ruddi upp Stóra-Sandhól í mynni
Skorradals, hefir ekki náð nema út í mynni dalsins.
Hann hefir gengið fram fyrir um 12.000 árum eða eilítið
síðar. Skeljarnar í Melabökkum og undir Hafnarfjalli
eru jafnaldra eða eldri en framrás jökulsins. Framrás,
sem nefnd er Eldra Dryas mun hafa átt sér stað fyrir um
12.000 árum og hefir Þorleifur Einarsson (1968)
heimfært hana upp á framrásina, sem ruddi upp Álfta-
nesgarðinum. Jöklar hafa gengið fram í kjafta Borgar-
fjarðardala fyrir um 12.000 árum, en ekki náð suður
með Hafnarfjalli hvað þá suður í Melasveit. Daljöklar
hafa þó efalítið teygt sig fram úr flestum smádölum á
Skarðsheiðarsvæðinu og einnig út Hvalfjörð.
Benda má á því til stuðnings, að Y- og M-garðarnir á
Suðurlandi hljóti að vera frá Búðastigi, að engar skeljar
JÖKULL 35. ÁR 93