Jökull - 01.12.1985, Qupperneq 132
Á Steinþórsfelli. Þverártindsegg í baksýn. Ljósm. Valur
Jóhannesson.
Hópurinn við Esjufjallaskála. Ljósm. Valur Jóhann-
esson.
uppgöngustað. Var veður þá öllu skárra, en fremur
rigningarlegt. Þarna fann Pétur gamlan vin, vísilinn
Nagg, sem nýlega var framgenginn eftir nokkra daga
dvöl á jöklinum.
Klukkan 9 næsta morgun hófst svo gangan fyrir al-
vöru í ágætis veðri þó að enn væri skýjað og var hópur-
inn kominn á jökul um klukkustundu síðar. Brátt fór að
sjást til sólar og var eftir þetta stanslaus sól og blíða alla
göngudagana. í fyrstu var fylgt Mávabyggðaröndinni,
en síðan hallað sér til austurs að Esjufjallarönd og með
henni að Skálabjörgum. Jökullinn var nokkuð opinn
eftir óvenju snjóléttan vetur og yfir allmargar sprungur
að fara. Leikni fararstjórans og kunnátta í 'meðferð
ísaxar kom nú að góðu haldi. Annars var færi gott og
jökulþýfi ekki til trafala. Komið var að Tjaldmýri um
fimmleytið og nágrennið skoðað um kvöldið.
Útsýni frá Esjufjallaskála er þess virði að segja frá.
Öræfajökull í suðvestri og utan í honum Þuríðartindur,
Mikill, Heljargnípa og Saumhögg. Þá Vesturbjörgin
með Snók og Snæhettu. I næsta nágrenni Steinþórsfell
eða Lyngbrekkutindur og Skálahnúkar, en í austri
Breiðabunga með sérkennilegri gulri slikju, þá Þverár-
tindsegg og Veðrárdalsfjöll. Til suðurs ganga rendurnar
eins og gríðarbreiðar hraðbrautir allt suður á jökul-
sporð. „Andskoti er þetta flott“ sagði einhver. Þau orð
voru síðan endurtekin æði oft meðan á ferðinni stóð.
Næsta dag var gengið á Steinþórsfellið í stafalogni og
sól. Allir komust upp. Á tindinum var lengi dvalist enda
margt að sjá, og hrikalegur er kamburinn norðan við
hann. Um kvöldið var dundað við að draga saman
brakið úr gamla skálanum sem lá víða um vang eftir að
hann fauk af grunni sínum, brenna það og urða. Síðast
var eldur borinn að gólfinu og logaði vel í því. En viti
menn! Þegar svotil allt var brunnið sem brunnið gat
kom í ljós gamla gestabókin. Óskemmd en rennblaut og
vel læsileg. Meginhluti nætur fór í að leysa sundur
blöðin og hengja upp til þerris. Fararstjóri tók að sér að
koma bókinni í vörslu félagsins.
Næsta dag var gengið í Fossadal og skoðuð jökullón
og fossar, sem nóg er þar af. Leiðangursmenn mæla
ekki með því að stytta sér leið með klifri á þessum
slóðum, líklegra er að menn stytti sér aldur ef það er
reynt, því bergið er bæði laust og blautt, hálfgerður
grautur. Þá var gengið í Esjudal, en ekki tími til að
ganga á Esju sjálfa. Bíður það næstu ferðar. Um kvöld-
ið var lagað til kringum skálann og grjótbekkur hlaðinn
upp umhverfis hann. Um miðnættið læddist þoka upp
jökulinn og færði hann í kaf allt uppundir skála, og
kitlaði iljar leiðangursmanna, þar sem þeir sátu og
hvíldust á hlaðinu.
Á heimleið niður jökulinn daginn eftir hittum við
fyrir snjóbíl. Þar var kominn Björn Ólafsson á Höfn,
sem þá fóstraði í ellinni margan Vísilinn, sem áður gerði
garðinn frægan. Létti hann bakpokum af göngu-
mönnum og flutti að jökuljaðri. Við Breiðá skildu
leiðir, og urðu þau Valur, Pétur, Kristjana og Árni eftir
í sambýli við skúminn. Heim var haldið með rútubíl
næsta dag. Vel heppnuð gönguferð og minnisstæð öllum
sem þátt tóku.
130 JÖKULL 35. ÁR