Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2011, Blaðsíða 27
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 5. tbl. 87. árg. 2011 23
Edda Björg Sverrisdóttir, eddab@heilhus.is
Ég útskrifaðist frá Háskólanum á Akureyri
árið 2003. Ég hafði alltaf haft hug á að
vinna á landsbyggðinni og þegar ég var í
verknámi á heilsugæslusviði á Heilbrigðis
stofnun Þingeyinga á Húsavík sótti ég
um vinnu þar á sjúkrahúsinu. Vinnuna
fékk ég en var beðin um að byrja á því að
leysa af hjúkrunarfræðinginn á Þórshöfn
á Langanesi í 6 vikur þegar hún færi í
sumarfrí. Ég ákvað að láta slag standa þótt
ég hefði aldrei á Þórshöfn komið og hafði
því ekki mikla hugmynd um hvað ég væri
að taka að mér. Það kom sér því vel að ég
gat farið eina viku til Þórshafnar sem hluta
af verknáminu á heilsugæslusviðinu og
kynnst staðnum aðeins.
Eftir útskriftina um vorið fékk ég að
vera nokkrar vaktir á bráðamóttökunni
í Fossvogi til að skóla mig aðeins
til í bráðatilfellum áður en ég færi til
Þórshafnar. Þar sá ég margs konar tilfelli
sem ég hafði aldrei séð áður og fékk
frábæra tilsögn og góð ráð.
Á Þórshöfn og nágrenni búa rúmlega 400
manns. Þar er vel búin heilsugæslustöð
og læknir á staðnum. Ég átti að sinna
hefðbundnum heilsugæsluverkum, eins
og heimahjúkrun, lyfjatiltektum, aðstoða
á skiptistofu og sinna hverju því sem upp
á gat komið. Auk þess átti ég að hafa
umsjón með öldrunarheimili einn dag í
viku og þess utan ef eitthvað sérstakt
kom upp á.
Ég mætti á sunnudagskvöldi spennt yfir
því sem koma skyldi og daginn eftir
var ég með hjúkrunarfræðingi fram að
hádegi. Þá fékk ég lyklana afhenta og
var orðin sjálfstæður hjúkrunarfræðingur
með rúmlega vikugamalt hjúkrunarleyfi.
Ég var nú bara nokkuð roggin með mig
og alveg staðráðin í að standa mig. Það
sem ég ekki vissi fyrr en þennan dag var
að það var enginn læknir á staðnum og
yrði ekki fyrstu vikuna mína. Hann hélt til á
Raufarhöfn sem er um það bil 45 mínútna
akstur í burtu. Mér leist ekki alveg á það
svona í fyrstu og kláraði þennan fyrsta
vinnudag með nokkur fiðrildi í maganum.
Eftir vinnudaginn buðu krakkar úr sveitinni
mér á hestbak. Það voru bestu móttökur
sem ég gat fengið, bláókunnugt fólk að
bjóða mér á bak. Reiðtúrnum var rétt
lokið þegar vinnusíminn minn hringdi því
kona hafði slasað sig. Ég dreif mig að
skoða það mál og leysti það í samráði
við lækninn á Raufarhöfn. Ég var rétt
komin heim þegar síminn hringdi aftur
og maður hafði skorið sig í andliti. Þessi
tilfelli gengu vel fyrir sig í samráði við
lækninn og ég fór í háttinn um kvöldið
dösuð og hissa yfir því hvað væri mikið að
gera á svona litlum stað. Dagurinn á eftir
var mjög hefðbundinn þar til venjulegum
vinnutíma var lokið. Þá var slysaútkall
sem enn fór vel en ég var nú orðin svolítið
stressuð yfir ábyrgðinni sem ég bar. Um
Edda Björg Sverrisdóttir er hjúkrunarfræðingur
á sjúkrasviði við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á
Húsavík og við Reyksímann 8006030.
nóttina, aðra nóttina mína á Þórshöfn,
hringdi starfsmaður af öldrunarheimilinu
og sagði mér að íbúi þar væri eitthvað
skrítinn. Ég hraðaði mér yfir til þeirra og
þegar ég kom að einstaklingnum var hann
hættur að anda og við nánari skoðun að
fara í hjartastopp. Ég hafði aldrei séð
manneskju í hjartastoppi eða orðið vitni
að viðbrögðum við því og 45 mínútur í
lækninn. Ég gerði mitt besta en það fór
þó svo að stuttu eftir að læknirinn kom
var sjúklingurinn úrskurðaður látinn. Þegar
ég kom heim í háttinn undir morguninn
ætlaði ég aldrei að geta sofnað. Fleira
hafði gerst á þessum fyrstu tveim dögum
en mig hafði órað fyrir þegar ég réð mig í
þessa vinnu.
Vikurnar, sem á eftir komu, voru ekki
alveg svona viðburðaríkar en það var
mikið að gera og mjög lærdómsríkt. Ég
minnist þess ekki að hafa á einhverjum
tímapunkti fundist ég ekki ráða við
aðstæður. En þegar ég lít til baka núna
átta árum síðar finnst mér hálfglannalegt
að senda óharðnaðan hjúkrunarfræðing
einan á afskekktan stað. Mér þætti líka
gaman að vita hvað íbúum á smærri
stöðum úti á landi finnst um það að
reynslulítill hjúkrunarfræðingur sé einn
á vakt. Á móti var þetta ómetanleg
reynsla. Ég varð sjálfstæðari bæði í
vinnubrögðum og samskiptum við fólk.
Fyrir það er ég óendanleg þakklát. Ég
hvet alla sem fá tækifæri til að vinna
sjálfstætt á landsbyggðinni að grípa það,
það er gaman að koma sjálfri sér á óvart.
Ég skora á Arnrúnu Höllu Arnórsdóttur,
hjúkrunarfræðing við Heilbrigðisstofnunina
á Sauðárkróki, að skrifa næsta þankastrik.
ÞANKASTRIK
AÐ ÖÐLAST SJÁLFSTÆÐI Í VINNU
Eftir að ég útskifaðist sem hjúkrunarfræðingur fékk ég vinnu á litlum stað
úti á landi. Vinnan krafðist mikils sjálfstæðis og mig langar að segja frá
fyrstu dögunum.