Gerðir kirkjuþings - 01.01.2012, Page 25
25
Setningarræða forseta kirkjuþings, Magnúsar E. Kristjánssonar
Kirkjuþing 2012 er sett, 49. kirkjuþing hinnar íslensku þjóðkirkju.
Hjartanlega velkomin öll hingað í dag, kirkjuþingsfulltrúar og góðir gestir.
Í dag fögnum við og heilsum sérstaklega nýjum biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur
sem nú kemur á sitt fyrsta reglulega kirkjuþing. Við væntum mikils af samstarfi við hana á
kirkjuþingi sem og af forystu hennar í öllu starfi þjóðkirkjunnar. Frú Agnes hefur tekið við
því vandasama hlutverki að leiða okkur sem biskup Íslands og er fyrsta konan sem gerir
það. Það er okkar allra sem í þjóðkirkjunni erum að styðja okkar biskup. Við óskum frú
Agnesi heilla og biðjum henni Guðs blessunar í þessu starfi.
Þá vil ég fyrir hönd kirkjuþings færa herra Karli Sigurbjörnssyni fyrrum biskupi Íslands
bestu þakkir fyrir hans mikla og góða starf og óska þeim hjónum herra Karli og frú Kristínu
Guðjónsdóttur alls hins besta og Guðs blessunar á þessum tímamótum í þeirra lífi.
Við heilsum líka nýjum vígslubiskupi á Hólum sr. Sólveigu Láru Guðmundsdóttur
og bjóðum hana sérstaklega velkomna í sínu nýja hlutverki til kirkjuþings. Jafnframt
þökkum við gott samstarf við sr. Jón Aðalstein Baldvinsson fyrrum vígslubiskup á Hólum
og biðjum þeim hjónum sr. Jóni Aðalsteini og konu hans frú Margréti Sigtryggsdóttur
blessunar Guðs.
Þá vil ég færa Pétri Hafstein fyrrum forseta kirkjuþings þakkir okkar kirkjuþingsfulltrúa
fyrir hans mikla framlag til kirkjuþingsins. Persónulega vil ég þakka einstaklega góð og
gefandi samskipti. Ég veit að ég mæli fyrir munn allra kirkjuþingsfulltrúa þegar ég óska
Pétri og frú Ingu Ástu Hafstein Guðs blessunar og allra heilla.
Það eru mikil tímamót þegar svo mikil breyting verður á forystufólki kirkjunnar á stuttum
tíma og það minnir okkur á að allt er breytingum háð, ekkert stendur í stað, lífið allt er á
stöðugri ferð.
Í því ljósi er ágætt að hugleiða ábendingu herra Karls Sigurbjörnssonar biskups er hann
hvatti til þess við setningu prestastefnu 2011 að kirkjan ætti að vera hreyfing lærisveina.
Mér þótti þetta gott veganesti. Eins og ég skil þetta þá er hreyfing ekki stöðnuð heldur
stöðugt á ferð og lærisveinar eru hópur sem telur sig ekki fullnuma og því viljugur til að
læra meira. Í þessu felst auðmýkt því af leiðir að lærisveinar eru ekki orðnir meistarar og
ef þeir eru hreyfing þá eru þeir ekki komnir á neinn endanlegan stað. Hreyfing lærisveina
hlýtur því að vera síkvik, tilbúin að læra, tilbúin að bregðast við breytingum stöðugt
leitandi að aðferðum til að geta gert betur í dag en í gær. Ég vil því gjarnan tilheyra þannig
hreyfingu lærisveina.
Það eru svo miklar breytingar á því umhverfi sem við störfum í og ekki minnstar vegna
aðgerða stjórnvalda. Þjóðkirkjan taldi sjálfsagt, eðlilegt og sanngjarnt að taka þátt í þeim
niðurskurði sem flestir þurftu að gera eftir ósköpin sem á okkur dundu í efnahagsmálum. Ég
veit hins vegar ekki hvernig það á að geta talist sanngjarnt að þjóðkirkjan og sóknir hennar