Gerðir kirkjuþings - 01.01.2012, Page 87
87
rennur út á miðju næsta ári, 2013. Voru öll sammála um að þar ætti kynning á niðurstöðum
úr téðri könnun að vega þyngst, yrðu heimtur öllu betri en síðast.
En því miður kom í ljós, þegar frestur var útrunninn, að einungis 22 sóknir höfðu brugðist
jákvætt við hinu endurnýjaða erindi nefndarinnar, sem er svörun upp á einungis 8,08% og
var þá heildarsvörun komin upp í rúm 10%. Það voru nefndarfólki mikil vonbrigði, eins
og gefur að skilja, eftir alla þá vinnu sem lögð hafði verið í umrædda könnun.
Í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin er brýnt að Kirkjuþing taki afstöðu til framhaldsins.
Nefndin telur mikilvægt að þessi vinna fari ekki forgörðum og það þurfi að leiða hana til
lykta með einum eða öðrum hætti. Þarna er mikilvægt sóknarfæri fyrir kirkjuna, að sýna
fram á það að unnið sé með faglegum hætti að jafnréttismálum innan vébanda hennar. Við
eigum ekki að láta slíkt tækifæri ónýtt, ekki síst í ljósi nýrra frétta um aukinn launamun
kynjanna og aukna íhaldssemi ungs fólks í jafnréttismálum. Til þess þarf nefndin umboð
kirkjuþings, ekki síst fjárhagslegt, og einnig þarf að ræða hvort ekki þurfi að gera ákveðnar
breytingar, t.d. á aðkomu prófasta að þessu máli.