Gerðir kirkjuþings - 01.01.2012, Page 105
105
Kjörskrá skal liggja frammi í eina viku á biskupsstofu og hjá próföstum. Heimilt er
kjörstjórn að láta kjörskrá liggja frammi á fleiri stöðum svo og að birta hana á vefsvæðum.
Kjörstjórn auglýsir framlagningu kjörskrár og kærufrest, sem skal vera ein vika frá
framlagningu.
Kjörstjórn úrskurðar kærur, og gengur endanlega frá kjörskrá innan viku frá lokum
kærufrests. Niðurstöður kjörstjórnar skulu liggja frammi á biskupsstofu og skulu
kærendur kynna sér þær þar. Heimilt er að skjóta úrskurði kjörstjórnar til yfirkjörstjórnar
þjóðkirkjunnar, innan þriggja daga frá því að kærufrestur rann út. Yfirkjörstjórn skal hafa
lokið úrlausnum kærumála innan viku frá því kæra barst.
Útsending kjörgagna – kosning.
8. gr.
Kosning skal vera rafræn og hefjast eigi síðar en 1. maí á því ári sem kjósa skal. Þá
sendir kjörstjórn öllum þeim sem kosningarrétt eiga nauðsynleg kjörgögn, þ.e. skrá yfir
frambjóðendur í hlutaðeigandi kjördæmi og kjördeild. Þá skulu fylgja leiðbeiningar um
það hvernig kosning fari fram.
Kjörgögn þessi eru send rafrænt með staðfestri móttöku. Hafi kjósandi ekki rafrænt
póstfang skal senda lykilorð til hans í pósti ásamt leiðbeiningum um hvert hann skuli
snúa sér. Allar upplýsingar og nauðsynleg gögn skulu einnig vera aðgengileg á vef
þjóðkirkjunnar.
Rafrænni kosningu skal vera lokið á miðnætti 15. maí.
Kjörstjórn við kirkjuþingskjör.
9. gr.
Kjörstjórn skipa þrír menn til fjögurra ára.
Biskup skipar formann og varaformann. Kirkjuþing kýs tvo kjörstjórnarmenn og tvo
varamenn hvors þeirra um sig. Varamenn skulu kosnir í þeirri röð sem þeir taka sæti
aðalmanns.
Kjörstjórnarmenn mega hvorki vera kirkjuþingsmenn eða varamenn þeirra né í föstu,
launuðu starfi hjá þjóðkirkjunni.
Kosning til kjörstjórnar fer fram á þriðja reglulega kirkjuþingi eftir kjör kirkjuþings.
Biskup skal kunngera skipun formanns og varaformanns á því kirkjuþingi, áður en þingið
kýs til kjörstjórnar.
Kjörtími kjörstjórnar er frá 1. desember það ár sem þriðja kirkjuþing er haldið.
Kjörstjórn hefur aðsetur á Biskupsstofu. Kjörstjórn er heimilt að fela starfsmönnum eða
trúnaðarmönnum þjóðkirkjunnar að annast á ábyrgð kjörstjórnar framkvæmd tiltekinna
þátta í kosningu til kirkjuþings.
Niðurstaða kosningar og útgáfa kjörbréfa
10. gr.
Kjörstjórn úrskurðar atkvæði og staðfestir niðurstöðu kosningar.
Sá er kjörinn aðalmaður, sem flest fær atkvæði sem aðalmaður. Sá er kjörinn 1. varamaður