Morgunblaðið - 31.12.2015, Blaðsíða 54
54 STJÓRNMÁL
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 31. DESEMBER 2015
K
æru lesendur.
Það er mikilvægt að gera mistök, þá er verið að
prufa sig áfram og læra af því sem ekki tekst. En
þá er líka merki um heimsku að endurtaka sömu
mistökin aftur. Viðfangsefni stjórnmálanna er að
leysa úr vandamálum dagsins í dag og setja stefnur til fram-
tíðar. Án skýrrar framtíðarstefnu eiga stjórnmál eða stjórn-
málafólk sér takmarkaðan tilgang.
Á áramótum er við hæfi að hugsa aftur. Við lifum mikla um-
brotatíma. Hvort sem við horfum til tækniþróunar, aukinnar
þátttöku landa og hópa sem áður voru jaðarsett, umhverfis- og
loftslagsmála eða þjóðflutninga sem virðast engan enda ætla að
taka. Á Íslandi gengur margt vel, annað síður. Efnahagurinn
sígur í rétta átt í uppbyggingu eftir hrunið stóra. Samt eru blik-
ur á lofti, enn mælist gríðarlegt vantraust á helstu stofnanir
samfélagsins. Trú á stjórnmálaflokka er í frostmarki og fylgið
flýtur sem aldrei fyrr.
Pólitík snýst um að taka ábyrgð
Þegar sá sem þetta ritar lítur til baka er baksýnisspegillinn
eins og rispuð plata. Hugurinn leitar aftur til október 2008 þeg-
ar íslenska bankakerfið hrundi og við heyrðum fréttir af því að
eldsneytisbirgðir og lyf yrðu brátt á þrotum. Við sem höfðum
setið hjá í þjóðfélagsmálum vöknuðum upp við vondan draum
og uppskárum meiriháttar bömmer. Spekingarnir, stjórn-
málastéttin, vitringar viðskiptalífsins, fjölmiðlarnir, allir virtust
hafa brugðist traustinu. Já, við höfðum treyst þessu fólki og
þessum stofnunum. Oft mátulega en allavega treyst því að þau
myndu koma í veg fyrir að allt færi á hvolf. Raunin varð önnur.
En eins og þegar náttúruhamfarir dynja yfir þá fæddist ein-
hver fítónskraftur í íslensku samfélagi. Almenningur reis upp,
kynnti sér málin og tók þátt. Í öllu svartnættinu var þetta ljós
það sem hélt okkur gangandi. Pólitík snýst um að taka ábyrgð
og íslenska þjóðin tók ábyrgð, sameiginlega. Tvennt var kristal-
tært; við skyldum djöflast í gegnum þetta hvað sem það kostaði
og hitt, að við skyldum læra af mistökum fortíðar og passa upp
á að endurtaka þau aldrei aftur. Það er upp úr þessum krafti og
þessari hugsjón sem ég starfa í stjórnmálum. það er upp úr
þessum jarðvegi sem Björt framtíð er stofnuð. Það er draum-
urinn um umbætur og siðbót.
Það þurfti miklar fórnir til. Gengishrun með kostnaðarauka
og hækkanir skulda gengu yfir allt samfélagið. Skerðingar á
bótum og kaupmáttarrýrnun bitnuðu á þeim sem síst skyldi.
Þau okkar sem héldu vinnunni sættum okkur við kauplækkanir.
Þeir sem reyndu að skjóta sér undan því að axla sameiginlega
ábyrgð voru umsvifalaust úthrópaðir. Internetið var ekki fund-
ið upp í hruninu, en í hruninu tók það við stöðnuðum boðleiðum
sumra og varð rödd allra. Er nema von að sumir kveinki sér
stundum undan því að hafa misst einkaleyfið á því að hafa rödd.
Við endurskipulögðum fjármálakerfið, skófluðum okkur í gegn-
um skuldaskaflana. Við þéttum reglu og lagaverk, styrktum
stofnanir sem eiga að fylgja því eftir og settum kröfuna um
gagnsæi og jafnræði á oddinn. Við kusum stjórnlagaráð til að
endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins til þess að meitla þessa
nýju hugsun í stein. En hvað hefur síðan skeð?
Því miður stefnir í að við endurtökum mörg af mistökunum
sem settu okkur á hausinn þarna um daginn. Sífellt sjást fleiri
merki um endurkomu ógagnsærra vinnubragða, tilvilj-
anakenndra ákvarðana og þjónkun við sérhagsmuni sumra um-
fram annarra. Um þetta getur aldrei orðið víðtæk sátt í ís-
lensku samfélagi. Sérstaklega ekki eftir það sem á undan er
gengið. Í ólgunni eftir hrunið varð til óorðaður þjóðfélagssátt-
máli um annað. Er nema von að fólk upplifi þetta sem svik? Er
nokkuð skrítið að fólk flytji úr landi þrátt fyrir merki um upp-
gang að meðaltali? Það er eins og sýnin á betri framtíð hafi ver-
ið sett til hliðar.
Vandræðagangur stjórnvalda veldur vonbrigðum
Betri gangur í efnahagnum hefur skilað sér til ýmissa í sam-
félaginu. Útflutningsgreinarnar mala gull og sjaldan ef nokk-
urn tíma hafa sést aðrar eins hagnaðartölur í sjávarútvegi.
Kaupmáttur smáeykst og húsnæðismarkaðurinn er kominn á
fullt, fyrir þá sem á annað borð komast inn á hann, leigjendur
og ungt fólk sem er að hefja búskap situr eftir. Skuldaleiðrétt-
ingin gagnaðist þeim mest sem skulduðu mest, þ.e.a.s þeim sem
voru í dýrum eignum, gjarnan tekjuháum íbúum höfuðborg-
arsvæðisins. Laun hækka en bætur aldraðra og öryrkja troða
marvaðann og bilið milli þeirra og hinna sem eru á vinnumark-
aði eykst. Það tóku allir þátt í fórnum eftirhrunsáranna en nú,
þegar borð er fyrir báru, þá fá sumir bót sinna mála en aðrir
sitja eftir. Skattur á mat er hækkaður, barna- og vaxtabætur
lækka eða sitja í stað og tekjuskattur lækkar fyrir þá sem eru
með meðaltekjur og þar yfir. Þetta er ekki réttlátt og óréttlæti
er bara ekki í tísku lengur, hafi það einhvern tíma verið það.
Vonbrigðin yfir vandræðagangi stjórnvalda eru töluverð.
Seinagangurinn í endurskoðun á stjórnarskrá er grátlegur.
Enn er órætt að jafna atkvæðisvægi, fullgilda sáttmála Samein-
uðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks osfrv, osfrv. Áhersla
sumra á að viðhalda íslensku krónunni, þrátt fyrir sorgarsögu
hennar svo að segja frá upphafi, er óskiljanleg. Er það vegna
sérhagsmuna þeirra sem hagnast á öldugangi gjaldmiðilsins?
Eða erum við orðin svo háð því að halda í þá hækju sem geng-
isfellingar eru að við þorum ekki að sleppa henni? Stórt er
spurt.
Nú eiga allir rétt á að taka þátt
Á sama tíma leggur forsætisráðherra áherslu á að end-
urskipuleggja höfuðborgina í stíl liðins tíma. Fjármálaráðherra
vill endureinkavæða banka og dreifa smásneið af þeirri köku til
landsmanna. Hann bendir á hvað það sé einfalt að gera þetta á
hlutabréfareikningnum eins og almenningur sé almennt vel að
sér í slíku. Utanríkisráðherra reynir að sniðganga þing og þjóð,
þvert ofan í fyrri loforð, og stöðva aðildarumsókn að Evrópu-
bandalaginu af því að honum finnst það sniðugt. Forysta stjórn-
arflokkanna í fjárlaganefnd amast út í varnaðarorð stjórnenda í
heilbrigðiskerfinu, hrýs hugur við kostnaði við rekstur eftirlits-
stofnana og leggur til niðurskurð hjá embætti umboðsmanns al-
þingis. Kröfur um aukið lýðræði, breiðara samráð, opnari og
gagnsærri vinnubrögð eru hlegnar út af borðinu sem samsær-
iskenningar andstæðinga. Þetta eru ekki góð skilaboð og geta
seint talist uppbyggileg vinnubrögð.
Við þurfum að læra af mistökunum og rifja upp skilaboð
eftirhrunsáranna. Við þurfum að átta okkur á því að valdið og
röddin tilheyrir öllum almenningi en ekki bara sumum. Sjálf-
krafa virðing ‘kallsins’, ráðamannsins og valdaklíkunnar er liðin
tíð. Nú eiga allir aðkomu, konur og menn, utanbæjarfólk sem
höfuðborgarbúar, fatlaðir, aldraðir, útlendingar, ungt fólk og
börn eiga rétt á að taka þátt. Að koma í veg fyrir það lýsir al-
gjörum skorti á framtíðarsýn.
En það sem er að, því má breyta. Það þarf bara að breyta því.
Þess utan er margt gott á Íslandi. Ísland er komið á EM, ekki
er útséð um að við vinnum ekki Eurovision á árinu 2016 og
Björk, Aníta Hinriksdóttir og Jóhann Jóhannsson eiga örugg-
lega eftir að sópa að sér verðlaunum á næsta ári. Mig grunar
jafnvel að það verði frábært veður á landinu næsta sumar.
Treystum því a.m.k. þangað til annað kemur í ljós. Góðar stund-
ir og gleðilegt nýtt ár!
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar
Morgunblaðið/Styrmir Kári
Horft um öxl og fram á veg
Við þurfum að læra af mistökunum og rifja
upp skilaboð eftirhrunsáranna. Við þurfum að
átta okkur á því að valdið og röddin tilheyrir
öllum almenningi en ekki bara sumum.