Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Page 2
2 TMM 2008 · 4
Frá ritstjóra
Það féllu mörg og allstór orð um síðasta hefti en sem betur fór flestöll hlýleg. „Ég er
búinn að lesa nýjasta heftið og finnst það stórgott,“ sagði einn dæmigerður bréfritari.
„Áhugaverð grein eftir Jónas Sen, skemmtilegur jassblær á greininni hans Ástráðs
Eysteinssonar og gaman að fá söguna á bakvið forsíðumyndina hans Gylfa,“ skrifar
Jón. Honum fannst smásaga Ragnheiðar Gestsdóttur ganga vel upp og var líka
ánægður með grein Úlfhildar Dagsdóttur um ljóðabækur síðasta árs. „Hún hefur ansi
gott lag á þessu erfiða formi yfirlitsgreinarinnar,“ segir hann. Og Sigurður skrifar:
„Frábær greinin hans Ástráðs um sambrasið og falleg umfjöllun hjá Úlfhildi, vitn-
isburður um hversu vel má meta gildi skáldskapar án þess að fella dóm eða draga í
dilk.“ En ekki voru allir sammála því. Nokkrum fannst hún gera upp á milli karla og
kvenna og einn sagði beinlínis að það væri hastarlegt kynjamisrétti í þeirri grein.
Forsíðuefnið fékk flest kommentin, og fallegasta athugasemdin kom frá Eggert:
„Þetta er alveg með ólíkindum. Þarna er Gylfi að þvælast um Evrópu, fær lánaðan
ritvélargarm hjá kunningja sínum og lemur á hann bréf til pabba síns – og úr verð-
ur klassískur texti!“
Óvæntari voru viðbrögðin við texta Finns Þórs Vilhjálmssonar, „fyrir eftir“. Nokkr-
ir hringdu (aðallega konur) og lýstu fögnuði með það framtak hans að skrifa upp viðtal
Arnars Gauta sjónvarpsmanns við Ásgeir Kolbeins athafnamann í sjónvarpsþættinum
Innlit-Útlit á SkjáEinum haustið 2006. Ein sagðist vera búin að lesa tvisvar og hafa
hlegið ennþá meira í seinna skiptið, og önnur sagði að þetta væri hæfileg útfararræða
yfir innlits-útlits vitleysunni á undanförnum árum. En Finnur hrökk svolítið við þegar
honum var sérstaklega hælt fyrir að semja svona snjallan texta.
Ljóðasyrpa Lindu Vilhjálmsdóttur, Grasaferðalok Jóns Karls Helgasonar og
grein Sigurbjargar Þrastardóttur sem bæði var um Stein Steinarr og ekki um hann
vöktu ómælda aðdáun lesenda. En einhverjir voru óvissir um hvort þeir ættu að
taka grein Andra Fannars og Steinars Þórs um sjónvarpsþáttinn Næturvaktina
alvarlega. Höfðu á tilfinningunni að þetta væri gys. Ég læt lesendum eftir að skera
úr um það. Grein Kristínar Marju Baldursdóttur tóku hins vegar allir alvarlega. Sú
grein var brýn fyrir tveimur mánuðum en hún er hreinlega skyldulesning núna
þegar nauðsynlegra er en nokkurn tíma að átta sig á hvað skiptir máli í lífi okkar
og fylla bakpokann af því.
Nú er komið að kveðjustund, því frá og með næsta hefti tekur nýr ritstjóri við
Tímaritinu. Þessi fimm undangengnu ár hafa verið yndisleg í samfylgd ykkar,
kæru lesendur. Ég þakka innilega uppörvandi samtöl og bréfaskipti og ekki síst
tryggðina – sem ég vona að þið sýnið Tímaritinu áfram á ennþá erfiðari tímum
sem nú ganga yfir. Megið þið öll koma standandi niður,
ykkar Silja