Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Síða 10
Þ o r l e i f u r H a u k s s o n
10 TMM 2008 · 4
skortir skapgerð til alls sem krefst stórhuga. Skáldið gerir uppreisn móti
siðum og svefnmóki slíkra borgara.“ Í framhaldinu segir hann: „Ég veit
ekki hverju fólk trúir um þig eða mig, en ég veit að við lútum öðrum og
æðri dómstóli en þvaðrinu og moldrokinu hjarna á götunni.“
Það vorar, veðrið er guðdómlegt, fjöllin spegla sig í pollinum, og nú
fara bréfin að snúast um væntanlega endurfundi. Fyrir milligöngu vinar
síns Einars Olgeirssonar hefur Davíð fengið boð um að ferðast með
norrænni stúdentasendinefnd til Sovétríkjanna í júlí 1928. Leiðin liggur
um Kaupmannahöfn, og Davíð ætlar að dveljast þar lengi:
Það verður yndislegt, við skulum leggjast út. Við skulum verða börn skóganna,
teyga ilm jarðar og gleyma öllu öðru en því sem lífið á best. Elsku, elsku Þóra
mín, draumar geta verið guðdómlegir, en þó er enn þá fegra þegar þeir rætast.
Í Rússlandsferðinni skrifar Davíð Þóru tvö bréf, og að henni lokinni
rætist draumurinn um endurfundi einhvers staðar á Sjálandi, á stað sem
þau kalla í bréfum sínum „No name“. Þessa staðar minnist Davíð oft í
bréfum sínum síðar. Hann segir að dagarnir og næturnar þar hafi verið
ógleymanleg og þau hljóti bæði að minnast þeirrar samveru til dauða-
dags. Aðeins iðrast hann þess að hafa ekki verið henni eins góður og
hann hefði átt að vera.
Bréfaskriftirnar halda áfram eftir að Davíð kemur aftur til Akureyrar
í lok júlí og fram á næsta vor þegar Þóra kemur heim aftur að loknu
námi. Ástarjátningarnar eru þær sömu, en það er eins og Davíð sé að
gera upp samband þeirra og sjálfan sig og átta sig á því að hann sé ekki
tilbúinn til að festa ráð sitt: „Ég veit að ég hef oft verið þér vondur og
verð það kannski alltaf, en samt sem áður elska ég þig, Þóra. […] En mér
finnst ég ekki ráða yfir lífi mínu sjálfur, mér finnst ég verða að lúta ein-
hverjum vilja eða forlögum sem ég get ekki ráðið við sjálfur, sem eru
máttugri en ég.“
Næstu árin voru Davíð og Þóra bæði búsett á Akureyri, þannig að þau
skrifast aðeins á þegar annað þeirra er fjarri. Bréf Davíðs frá þessum
tíma eru enn full af ást og umhyggju, en jafnframt á hann í baráttu við
það sem hann á einum stað kallar Kórmákseðli sitt. Og hann við-
urkennir að það sé erfitt fyrir konur að eyða árum sínum í sambandi við
mann eins og sig. „En ég get ekki verið öðru vísi en ég er, ég vildi það en
get það ekki“.
Að sögn fósturdóttur Þóru truflaði sambandið við Davíð hana og
gerði hana óhamingjusama. Á útmánuðum 1932 tók hún sig upp og
ferðaðist til Lundúna og þaðan með skipi til Spánar sem nuddari og sel-
skapsdama enskrar hefðarkonu, og lauk þar með búsetu hennar á Akur-