Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Síða 15
TMM 2008 · 4 15
Ásgeir H. Ingólfsson
Amma höfundarins
Flöskuskeyti frá Bosníu
Við höfum hlykkjast um bosníska fjallvegi í þrjá tíma þegar ég sé hana.
Bílstjórinn kallar „Višegrad – stari grad“ og ég tek saman föggur mínar
og stekk út úr bílnum, næ naumlega að veifa bílstjóranum til að hindra
hann í að hverfa á braut með bakpokann minn þunga. Og ég endurtek;
ég sé hana.
Þarna blasir hún við. Brúin. Með táninga á brúarsporðinum og ást-
fangin pör á brúarhandriðinu, brúin hans Ivo Andrić yfir fljótinu hans
Saša Stanišić. Brúin á Drínu, nafn og sögusvið þekktasta skáldverks sem
frá Balkanskaganum hefur komið.
Hér mætir mesta fegurðin mesta ljótleikanum, helstu bókmenntaverk
þeirrar þjóðar sem eitt sinn hét Júgóslavar renna saman við einhver
hryllilegustu fjöldamorð sömu þjóðar á þessari risastóru brú sem tengir
árbakka þessa smábæjar sem liggur báðum megin árbakkans. En ég er
kominn hingað með heimilisfang í vasanum, ég þarf að hitta gamla
konu og skila henni kveðju frá barnabarninu hennar úr fjarskanum.
Brú yfir vandræðavatn
Þetta hófst allt fyrir tæpum fimm hundrað árum þegar tíu ára snáði var
hertekinn í fjallaþorpi skammt frá og var fluttur fram hjá Višegrad.
„Hann festi sér rækilega í minni grýttan fljótsbakkann, vaxinn strjálum
pílviðartjám gráum og blaðvana. Hann gleymdi ekki fatlaða ferjukarlin-
um né hrörlegu myllunni, sem full var af köngulóarvef og dragsúg. Þar
hafði hann orðið að gista um nóttina, því það tók svo langan tíma að
ferja allan þennan fjölda yfir gruggugt fljótið, þar sem loftið kvað við af
gargandi krákum. Líkt og fyndi hann til sjúklegs sársauka í líkama
sínum, líkt og hnífur væri rekinn á kaf í brjóst hans, hvað eftir annað
með óbærilegri kvöl, geymdi hann minninguna um þennan stað, þar
sem fljótið rauf þjóðveginn, svo að öll hin vonlausa örbirgð og eymd