Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Qupperneq 17
A m m a h ö f u n d a r i n s
TMM 2008 · 4 17
mestu enskumennirnir sem ég átti eftir að hitta í Višegrad. Þeir segja
mér að hótelið sé í fimm kílómetra fjarlægð, inni í skógi. Hotel Višegrad
standi að vísu við brúna hinum megin, en það sé verið að gera það upp.
Ég held yfir brúna með tuttugu kíló af farangri á bakinu og þegar ég
kem yfir um sýnist mér við fyrstu sýn að hótelið sé við ágætis heilsu – en
þegar ég kem nær sé ég að það eru bara ljós í bingósalnum, enda virðast
íbúar bæjarins ólæknandi bingósjúklingar upp til hópa – seint á laug-
ardagskvöldi virðist þetta vera aðalstaðurinn í miðbænum.
Þannig að ég tek að því er virðist eina leigubíl bæjarins til Vilina Vas,
heilsuhótels í skógi töluvert fyrir utan bæinn. Þetta er fjögurra stjörnu
hótel samkvæmt anddyrinu og þar er að minnsta kosti tveimur stjörn-
um logið, en sem betur fer er verðið meira í takt við gæðin en stjörnu-
gjöfin. Ég fer svo aftur niður í bæ bakpokalaus, reyni að átta mig á
þessum sögulega bæ. Hér gerast þær tvær bosnísku bækur sem ég hef
lesið á íslensku, hér er sú voldugasta steinbrú sem ég hef enn fundið í
Evrópu – og umhverfis allt þetta er eitthvert mesta krummaskuð sem ég
hef augum litið í gömlu Austur-Evrópu. Bærinn er hótellaus, barirnir
loka klukkan eitt um helgar – en tæmast á miðnætti – og allt bendir til
þess að hér sé einfaldlega ekkert að gera, nema auðvitað að spila bingó.
Þetta er ekki staður sem maður býst við að fóstri skáld á borð við
Andrić og Stanišić. Og það er synd að brúin sé ekki betur nýtt. Í Mostar,
hinum megin í Bosníu, varð brúin til þess að bærinn breyttist úr smábæ
í höfuðstað Herzegóvínu. Brúin var endurbyggð eftir stríðið og er nú eitt
mesta friðartákn Balkanskagans og langvinsælasta forsíðufyrirsæta
ferðahandbóka um svæðið. En brúin yfir Drínu er miklu voldugri,
stærri og glæsilegri. Hún myndast að vísu ekki jafn vel en það er miklu
betra að sitja á henni, þetta er brú sem býr til líf, hér stoppa allir ef veður
leyfir, ástfangin pör láta vel hvort að öðru, unglingar og gamlingjar
spjalla á kapíjunni, eins konar samkomustað á miðri brúnni – en lífið
virðist varla ná út fyrir brúna núorðið.
Veröld sem var
Hér er þó rétt að minnast þess að Višegrad er ekki sami bær og fyrir
aðeins tæpum tveimur áratugum. Brúin var aftökustaður hersveita
Serba, hér voru múslimar skotnir eða skornir á háls, einir hundrað á
nóttu hverri. Fjöldi fórnarlamba er talinn vera á bilinu 1600 til 3000, hér
er tölfræðin sjaldnast skotheld. En hvað sem tölum líður þá er líklega
besta leiðin til þess að skilja harmleikinn að fletta upp á blaðsíðu 115 í
teiknimyndasögu Joe Sacco, Safe Area Goražde, og sjá gamlan mann