Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Page 23
TMM 2008 · 4 23
Lena Bergmann
Þegar ég varð Íslendingur
Árið 1986 gáfum við Lena út bók sem nefndist „Blátt og rautt“ en í henni skipt-
umst við á að segja frá bernsku– og unglingsárum okkar í tveim gjörólíkum
heimum, á Íslandi og í Rússlandi. Nokkru síðar vöktu ýmsir menn máls á því
að vel mætti halda áfram og bæta við annarri bók „um það hvernig Lena varð
Íslendingur en Árni júði“ eins og Þorgeir Þorgeirson komst að orði. Lena fór
eitthvað að velta þessu fyrir sér og árið 1987 eða 88 fór hún að hripa hjá sér
sitthvað um fyrstu ár sín á Íslandi. Ekki man ég hvort við töluðum í alvöru um
að búa til bók sem væri hliðstæð Blátt og rautt að gerð, og ekki man ég heldur
hvað því olli að Lena hélt ekki áfram með skrif sín. Svo mikið er víst að þau voru
lögð til hliðar og við höfðum bæði gleymt stílabókinni sem geymdi athuganir
hennar á sjálfri sér og Íslandi. Hún kom svo í dagsins ljós þegar ég var að taka
til í skrifborði Lenu skömmu eftir útför hennar og fer texti Lenu hér á eftir í
minni þýðingu.
Árni Bergmann
Suðaustan strekkingur með hellirigningu tók á móti okkur þegar við
lentum á Reykjavíkurflugvelli í nóvemberlok árið 1963. Sá hlýtur að vera
erkibjáni sem kemur með útlenda eiginkonu til þessarar fögru eyjar á
þessum árstíma. Myrkrið virtist endalaust og ekki við ljósi taka, og þótt
því sé haldið fram að svo verði ekki um alla eilífð og að hér verði líft
strax í febrúar, þá er ekki hægt að trúa því, og manni finnst að þeir sem
halda öðru eins fram séu samviskulausir lygarar og draumóramenn.
Og hvernig stóð eiginlega á því að ég lenti hér? Var það vegna þess hvern-
ig ég var upp alin? Þá er allt mömmu að kenna, sem brýndi fyrir mér frá
blautu barnsbeini að ef maður hefur tekið eitthvað að sér eða lofað ein-
hverju þá verður að standa við það þótt maður verði að brjóta í sér hvert
bein. Vissulega hafði ég gifst Íslendingi, það gerðist einhvernveginn án þess
að til stæði, allt getur nú komið fyrir rétt eftir tvítugt. Að vísu má segja að
fyrst útlendingur átti fyrir mér að liggja þá hefði hann getað verið til
dæmis Ítali frá þeirri dásemdarborg Flórens. En mér fylgdi víst sú skrýtna