Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Page 31
Þ e g a r é g va r ð Í s l e n d i n g u r
TMM 2008 · 4 31
enn frá fyrri tímum þá var það dót gjarna sett niður í kassa og geymt
undir rúmi í eina herberginu.
Og ég fór að fara í heimsóknir. Þá, fyrir 25 árum, var það næsta einfalt
og sjálfsagt. Fæstar giftar konur unnu. Þær sátu heima, pössuðu börnin,
bjuggu körlum sínum „yndisleg heimili“ og bökuðu í viku hverri. Þetta
með „fagurt heimili“, sem klifað er á í minningargreinum sem einhverri
helstu dyggð kvenna, varð aldrei mín dyggð og ég er stundum miður
mín út af því.
Ég þreytti Dóru, Kötu og Siggu með heimsóknum mínum og tvær-
þrjár góðar konur í viðbót sem höfðu þolinmæði til þess að ráða í málið
sem ég reyndi að tala. Fátt er svo með öllu illt: undir vetrarlok var ég
hætt að dotta undir samræðum á kvöldin, ég gat tjáð mig um einföld
efni og meira að segja í síma!
En ég bjó á ferðatöskum. Með flugmiða til baka í vasanum sem ég
hafði keypt til vonar og vara. Þegar ég vaknaði við að níu stiga rok skók
risið okkar gaf þessi miði ró minni hrelldu sál. Ég fer héðan og þar við
situr. Og Árni kemur á eftir okkur, hvað getur hann annað, þetta er ekki
mér að kenna, ég er búin að reyna en hvernig er hægt að lifa hér? Þau eru
þessu vön en ég venst þessu aldrei … Og ég hef enga vinnu og fæ aldrei
… Auðvitað vilja einhverjir læra rússnesku, en það er ekki vinna …
einkatímar … ég verð að láta nemendurna borga … Ég kann ekki á þetta
… Og Snorri litli er alltaf lasinn, hann er grænn í framan … Hann getur
ekki lifað í þessu loftslagi þótt aðrir krakkar líti ágætlega út … En þau
fæddust hérna … Og við erum blönk … Er þetta líf? Það er margt um
að vera í Moskvu. Þar er snjór … Á sunnudögum fara vinir mínir á
skíði …
Oft komum við saman á góðum dögum, átta til tíu manns, og ókum
út í næsta skóg. Tré undir snjó, kyrrð, skíðaslóðin vindur sig áfram milli
stofnanna, snjórinn er röndóttur: sól-skuggi, sól-skuggi … Mikið er
þetta allt ljúft – og flatt. Ég kunni aldrei við fjöll, hafði einhverja með-
fædda andstyggð á þeim. Ef einhversstaðar er snjó að finna hér á Íslandi,
þá er mér sagt að það sé uppi í fjöllum … Og ég get ekki farið upp í fjöll
… Já og hvernig er hægt að vera á skíðum hér?
Heima rennum við okkur í kyrrum skógi þar til nóg er komið, svo
förum við öll til Júra bróður að borða, Frosja (fóstra Mishu bróðursonar
míns) er búin að baka pirogi og kálsúpan hennar er frábær og kjötboll-
urnar. Þarna sitjum við til borðs í þrjá tíma og drekkum te og þvílík
samtöl! og ég skil alla þótt segi þeir ekki nema hálfa setningu og enginn
spyr mig heimskulegra spurninga.
Ó Drottinn minn … Lífið er búið. Ég hefi verið flæmd í útlegð …