Tímarit Máls og menningar - 01.11.2008, Side 46
Á g ú s t B o r g þ ó r S v e r r i s s o n
46 TMM 2008 · 4
Tyra Banks eða hvað þær hétu allar þessar kuldalegu tískudömur.
Úti um allan bæ sátu konur í íbúðum sem þær höfðu látið breyta í
stílhrein, veggjalaus og kuldaleg flæmi eftir einhverri tísku, en
sjálfar voru þær fábrotnar, hættar að hafa sig mikið til, klæddust
flíspeysum og sumar höfðu fitnað mikið. En íbúðirnar þeirra litu
einhvern veginn út eins og Grace Jones árið 1985.
Þórir settist við fartölvuna. Hún var opin, Ása hafði verið að
skoða einhverja uppskriftasíðu. Hann fór á já.is og sló inn síma-
númerið af símaskjánum:
Drífa Sjöfn Baldursdóttir, kennari – Brekkuskarði 5
Ása stóð á fætur og gekk inn í opið eldhúsið. Hann sló nafninu inn
í leitarvél þjóðskrárinnar. Stuttu síðar kallaði hann til Ásu:
„Þessi kona heitir Drífa Baldursdóttir og hún er kennari. Hún
er fædd árið 1960. Finnst þér ekki rosalega líklegt að ég fái mér
viðhald sem er 10 árum eldra en ég?“
Ása setti plastskál og sleif á eldhúsbekkinn, hikaði eitt augna-
blik, en svaraði þessu engu og hélt síðan áfram því sem hún var að
gera.
Nákvæmlega núna sársaknaði Þórir veggjanna. Það var ekki
hægt að loka að sér öðruvísi en fara inn á baðherbergi eða inn í
hjónaherbergi. Það var skást að sitja áfram við tölvuna. Þetta rifr-
ildi myndi gufa fljótlega upp. Best að segja ekki neitt næsta hálf-
tímann eða svo, tala síðan um eitthvað allt annað.
Hann heyrði útidyrnar opnast og skömmu síðar gekk 7 ára
sonur þeirra inn í eldhús, klæddur svörtum stuttbuxum og appel-
sínugulri treyju merktri Cassillas, markverði Spánverja. Ása lagði
frá sér áhöldin, fór til hans og áminnti hann blíðlega fyrir slóðina
af gúmmítægjum sem hann bar inn með sér á flísarnar. Gúmmí-
inu var, af ástæðum sem Þórir þekkti ekki, stráð á gervigrasvelli,
alltaf myndi hann tengja það við soninn og minningar um knatt-
spyrnuiðkun hans. Drengurinn bauðst til að þrífa upp eftir sig,
Ása hló við og rétti honum fægiskóflu og handkúst. Þórir horfði á
hann munda áhöldin og bogra yfir eldhúsgólfinu; hlýr straumur
fór um hann.
Hann fór inn á nafnlausa bloggsíðu. Hún hét Stolnar stundir. Í
efstu færslunni var ljósmynd af fuglum sem höfðu raðað sér á